Heimild: 433.is
Sóknarmaðurinn Kjartan Henry Finnbogason staðfesti í viðtali við 433.is að hann hafi skrifað undir uppsögn á samningi sínum í síðustu viku, að beiðni KR.
Kjartan var í stóru hlutverki hjá KR í byrjun tímabils en um mitt sumar var hann skyndilega settur út í kuldann og spilaði afskaplega lítið seinni hluta mótsins.
Nú hefur verið greint frá því að í samningi Kjartans hafi verið klásúla um að ef hann spilaði minna en 50 prósent af mínútum KR í sumar þá væri hægt að rifta samningnum. Ljóst varð að KR ætlaði að nýta sér þetta ákvæði.
„Ég hef bara byrjað sjö leiki, og vitandi af því hvernig samningur minn var uppbyggður þá fór mig fljótlega að gruna að menn væru mögulega að kokka sig í kringum ákveðið ákvæði í samningnum. Í byrjun október var ég svo boðaður á fund með formanni knattspyrnudeildar þar sem hann tilkynnti mér að félagið ætlaði að nýta sér riftunarákvæði í samningi mínum," segir hinn 36 ára gamli Kjartan við 433.is.
Kjartan lýsir furðu sinni á ummælum Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, sem sagði um helgina að Kjartan ætti enn ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann er ekki sáttur við framkomu uppeldisfélagsins í sinn garð.
Athugasemdir