Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   þri 18. október 2022 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Tók þessa ákvörðun þar sem ég vil prófa mig á hærra stigi"
Lengjudeildin
Harley Willard eftir leik með Þór í sumar.
Harley Willard eftir leik með Þór í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og sagt var frá um síðustu helgi þá er Englendingurinn Harley Willard búinn að rifta samningi sínum við Þór á Akureyri.

Hann var með uppsagnarákvæði í samningi sínum og nýtti sér það.

Willard gekk í raðir Þórs fyrir leiktíðina eftir að hafa síðustu ár leikið með Víkingi Ólafsvík.

Leikmaðurinn knái er 25 ára gamall og fæddur í Englandi, en hefur spilað fyrir yngri landslið Skotlands. Hann er uppalinn hjá Arsenal og Southampton en kom til Víkings í Ólafsvík árið 2019.

Willard var öflugur fyrir Þór í sumar og skoraði hann ellefu mörk í 22 leikjum í Lengjudeildinni í sumar. Hann skoraði alls 15 mörk í deild og bikar og lagði upp átta mörk ofan á það.

„Ég átti góða reynslu á Akureyri hjá Þór. Ég tók þessa ákvörðun þar sem ég vil prófa mig á hærra stigi, hvort sem það er á Íslandi eða erlendis. Ég er mjög þakklátur félaginu og ég óska því alls hins besta," segir Willard í samtali við Fótbolta.net.

„Ég er búinn að spila fjögur tímabil í Lengjudeildinni og ég hef skorað mörk og lagt upp. Núna er kominn tími á að taka næsta skref á ferlinum, hvar sem það verður. Ég hlakka til að takast á við næsta verkefni."

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá er áhugi á Willard hjá félögum í Bestu deildinni. Einnig er áhugi á honum hjá félögum í neðri deildum á Bretlandi og í Sviss.

Hér fyrir neðan má sjá samantektarmyndband frá sumrinu hjá enska framherjanum.


Athugasemdir
banner