Úkraínski þjálfarinn Vitaliy Kvartsyany segir að Íslendingar litu út fyrir að vera dauðir í 2-0 tapinu gegn Úkraínu í úrslitaleiknum um umspilssæti fyrir HM um helgina.
Lestu um leikinn: Úkraína 2 - 0 Ísland
Kvartsyany stýrði Volyn Lutsk í úkraínsku úrvalsdeildinni í nokkur tímabil í byrjun aldarinnar.
Hann er einn besti þjálfari í sögu félagsins, en hann ræddi við Tribuna um leikinn gegn Íslendingum og skaut þar föstum skotum.
„Liðið okkar vann þannig maður er í góðu skapi. Allir sem stóðu við bakið á Úkraínu fóru glaðir af leikvanginum. Við unnum afar mikilvægan leik.“
„Eina stressið var kannski lokakaflinn þegar liðið okkar lagði allt í sölurnar. Þegar á heildina er litið spilaði úkraínska liðið af varkárni og voru ekki að taka óþarfa áhættu. Það er alveg ljós að úrslitin skiptu mestu máli og jafntefli hefði ekki dugað. Ef Úkraína hefði lent undir þá hefði verið erfitt að koma til baka og þá hefðum við þurft að hafa miklar áhyggjur af útkomunni.“
„Strákarnir okkar voru samt mun grimmari og héldu vel í boltann ásamt því að spinna aðeins í sóknarleiknum. Ísland spilaði mjög takmarkaðan og þvingaðan leik. Ein eða tvær snertingar, sendingar til baka. Það var auðveldlega hægt að sjá það að gestirnir voru að spila upp á jafntefli. Þessir Íslendingar litu út fyrir að vera dauðir og kláruðu líklega markakvótann gegn Aserum,“ sagði Kvartsyany.
Athugasemdir




