Atletico íhugar að gera tilboð í Garnacho - Man Utd langt komið í viðræðum við Diallo - Dybala má fara ef hann er ósáttur
   mið 18. desember 2024 12:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Bjarki Björn: Sniðugt fyrir mig að fara alveg í nýtt umhverfi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Björn Gunnarsson var fyrir helgi keyptur til ÍBV frá uppeldisfélaginu Víkingi. Bjarki hafði síðustu tvö tímabil verið á láni hjá ÍBV og Eyjamenn gengu á dögunum frá því að hann er nú alfarið orðinn leikmaður félagsins.

Bjarki er 24 ára og var lánaður til Hauka, Þróttar Vogum og Kórdrengja áður en hann fór fyrst til ÍBV árið 2023. Hann ræddi við Fótbolta.net um félagaskiptin í ÍBV.

„Það er bara gaman og spennandi að vera loksins formlega orðinn leikmaður ÍBV. Ég vissi í raun alltaf að þeir væru að reyna fá mig aftur en svo urðu þjálfaraskipti og töluverðar breytingar á hópnum hjá þeim. Það er gott að vita að það var ennþá áhugi þrátt fyrir breytingarnar," segir Bjarki Björn.

Hvernig hafa þessi tvö síðustu ár verið í Eyjum?

„Mér hefur liðið mjög vel í Eyjum síðustu tvö ár, auðvitað mjög ólík tímabil en skemmtilegt samfélag og alltaf tekið vel á móti manni."

Tímabilið 2023 féll ÍBV úr Bestu deildinni. Bjarki náði einungis tíu leikjum á því tímabili en hann vera lengi frá þar sem hann viðbeinsbrotnaði. Á liðnu tímabili spilaði hann svo 14 leiki og skoraði fimm mörk þegar ÍBV vann Lengudeildina. Það gerði hann að fjórða markahæsta leikmanni liðsins á tímabilinu. Bjarki segist hafa breyst talsvert sem leikmaður frá komu sinni fyrst til ÍBV.

„Mér finnst ég hafa þroskast mikið bæði líkamlega og andlega síðustu 2-3 ár og orðið betri leikmaður fyrir vikið. Mér líður best á miðjunni eða úti hægra megin en ég hef spilað flest allar stöður."

Hvernig er að yfirgefa Víking?

„Ég held það sé bara sniðugt á þessum tímapunkti fyrir mig að fara alveg í nýtt umhverfi, þrátt fyrir að það sé auðvitað smá skrýtið að fara alveg úr Víkinni þar sem maður ólst upp og þekkir alla."

Hvernig líst þér á næsta tímabil?

„Næsta tímabil verður mjög spennandi, töluverðar breytingar á hópnum okkar og við höfum fengið nokkra mjög góða leikmenn inn sem verður gaman að spila með," segir Bjarki.
Athugasemdir
banner
banner
banner