,,Góður staður að vera á"
Kristinn Jónsson, leikmaður Breiðabliks, ræddi við Fótbolta.net á hóteli Breiðabliks í Strasbourg í gær. Blikar eru þessa stundina að undirbúa sig fyrir leikinn gegn Strasbourg sem fram fer á Stade de La Meinau klukkan 20:00 að íslenskum tíma í kvöld.
Breiðablik þarf að vinna leikinn til að eiga möguleika á umspilssæti. Liðin í 9.-24. sæti Sambandsdeildarinnar spila um átta laus sæti í 16-liða úrslitunum. Strasbourg er á toppi deildarinnar og er öruggt með sæti í 16-liða úrslitunum.
Breiðablik þarf að vinna leikinn til að eiga möguleika á umspilssæti. Liðin í 9.-24. sæti Sambandsdeildarinnar spila um átta laus sæti í 16-liða úrslitunum. Strasbourg er á toppi deildarinnar og er öruggt með sæti í 16-liða úrslitunum.
„Ég er hrikalega spenntur, geggjaður völlur, frábært lið sem við erum að fara spila á móti, mikið undir fyrir okkur líka. Ég er mjög spenntur eins og allur hópurinn."
„Ég veit í rauninni ekki mikið um einstaklingana í liðinu, en þetta er lið, kannski ekki varalið, sem tengist Chelsea að mörgu leyti. Mikið af ungum leikmönnum, 17-20 ára, líkamlega öflugt lið, hlaupa mikið, eru djarfir í sóknarleik og fara mikið maður á mann. Kannski reynslulítið lið, en hrikalega gott," segir vinstri bakvörðurinn Kristinn.
Vinstri bakvörðurinn Ben Chilwell er einn af reynslumestu leikmönnum liðsins. „Mér skilst að hann hafi verið inn og út úr liðinu, veit ekki hvort hann spili á morgun, en það væri helvíti gaman að fá að spila á móti honum."
„Völlurinn er geggjaður, þetta er hybrid-gras eins og á Laugardalsvelli, völlurinn sjálfur er mjög flottur, grasið er hart að mörgu leyti en boltinn rennur vel og þægilegt að spila á honum. Maður þarf eina æfingu til að venjast þessu, komandi af gervigrasi."
Nafni Kristins, Steindórsson, truflaði aðeins viðtalið á þessum tímapunkti og spurði hvort búið væri að ræða markið sem Jónsson skoraði gegn Shamrock. Það kemur að því innan skamms, en fyrst um leikinn á morgun.
„Það er flott (að fara í úrslitaleik), erum svo sem ekkert mikið að pæla í andstæðingnum, förum inn í þennan leik og hugsum um okkar gildi og hvað við ætlum að leggja áherslu á, eins og við höfum alltaf gert í Evrópuleikjum. Þetta er lið sem er í (sjöunda) sæti í frönsku deildinni. Að Blikar séu komnir á þann stað að keppa við það er góður staður að vera á."
Skoraði markið sem innsiglaði fyrsta sigurinn
Þá að markinu, Kristinn skoraði í uppbótartíma gegn Shamrock og innsiglaði 3-1 sigur liðsins. Með því tryggði hann Breiðabliki fyrsta sigurinn í Sambandsdeildinni. Markið skoraði hann með langskoti í autt markið en markvörður Shamrock hafði farið inn á vítateig Breiðabliks í hornspyrnu.
„Kannski skrítið að hann hafi farið inn í þegar 4-5 mínútur voru eftir. Í aðdragandanum að markinu tek ég smá sénsinn að fá boltann þarna og Gabríel setur boltann í svæðið. Skemmtilegt fyrir mig persónulega - hef upplifað mikið með Breiðabliki í gegnum tíðina - að hafa skorað í fyrsta sigri Breiðabliks í Sambandsdeildinni. Skemmtileg minning fyrir mig."
„Sekúndurnar voru hægar, ég var með ágætis sjónarhorn á þetta og leit út eins og boltinn væri hreinlega að fara út af, en boltinn tók einhvern sveig og endaði inni og bara mikil gleði," sagði Kristinn. Markið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir




