sun 19. apríl 2020 10:32
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: RMC Sport 
Segja Söru Björk vera búna að semja við Lyon
Gunnhildur Yrsa fær liðsfélaga í heimsklassa
Mynd: Mirko Kappes
Franski miðillinn RMC Sport heldur því fram að franska stórveldið Lyon, sem hefur verið besta félagslið Evrópu undanfarin ár, sé búið að krækja í Söru Björk Gunnarsdóttur á frjálsri sölu.

Sara Björk, sem hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Wolfsburg síðustu fjögur ár rennur út á samning í sumar. Hún er fengin til Lyon til að fylla í skarð Dzsenifer Marozsan, sem skiptir yfir til Utah Royals ásamt markverðinum Sarah Bouhaddi. Þar munu þær leika með Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.

Sara er 29 ára gömul og hefur unnið þýsku deildina og bikarinn undanfarin þrjú ár. Lyon er aftur á móti búið að vinna Meistaradeild Evrópu fjögur ár í röð og sigraði einmitt Wolfsburg tvisvar sinnum í úrslitum. Sara Björk var í byrjunarliði Wolfsburg og spilaði fyrstu 57 mínúturnar í úrslitaleiknum 2018. Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma en Lyon skoraði fjögur mörk í framlengingu og tryggði sér bikarinn.

Það verður áskorun fyrir Söru að vinna sér sæti í gífurlega öflugu byrjunarliði Lyon þar sem má finna miðjumenn á borð við Amandine Henry, Saki Kumagai og Amel Majri.

Félagaskipti Marozsan og Bouhaddi gætu lyft Utah í næsta gæðaflokk en liðið á enn eftir að taka þátt í úrslitakeppni bandarísku deildarinnar eftir að hafa endað í 5. og 6. sæti fyrstu tvö tímabil sín í deildinni. Utah var nálægt því að komast í úrslitakeppnina í fyrra en fjórir tapleikir í röð í síðustu umferðum tímabilsins gerðu út um þær vonir.
Athugasemdir
banner
banner