Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   sun 19. maí 2024 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sveinn Aron og félagar fallnir eftir tap á heimavelli
Mynd: Hansa Rostock
Mynd: Holstein Kiel
Mynd: Fortuna Dusseldorf
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það var nóg um að vera hjá Íslendingunum okkar sem spila sem atvinnumenn erlendis og voru þeir nokkrir sem komu við sögu í næstefstu deild þýska boltans í dag.

Þar féllu Sveinn Aron Guðjohnsen og félagar í liði Hansa Rostock eftir tap á heimavelli gegn Paderborn. Sigur hefði tryggt Hansa Rostock umspilsleik um sæti í deildinni, en fyrst liðið tapaði er það fallið niður í þriðju efstu deild.

Sveinn Aron byrjaði á bekknum og fékk að spreyta sig á lokakafla leiksins þegar Rostock var 1-2 undir, en tókst ekki að breyta gangi mála.

Hólmbert Aron Friðjónsson var þá ónotaður varamaður er Holstein Kiel lagði Hannover að velli, en Kiel var þegar búið að tryggja sér annað sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina. Hólmbert og félagar enda með 68 stig úr 34 umferðum og fara beint upp í efstu deild, en Hólmbert fékk afar lítinn spiltíma á leiktíðinni.

Ísak Bergmann Jóhannesson er aftur á móti með mikilvæga rullu í sterku liði Fortuna Düsseldorf sem endar í þriðja sæti og þarf því að spila umspilsleik um sæti í efstu deild. Dusseldorf mætir Bochum, sem endaði í þriðja neðsta sæti efstu deildar, í umspilinu.

Ísak var í byrjunarliðinu í 3-2 sigri gegn Magdeburg í dag, þar sem Grikkinn ungi Christos Tzolis skoraði öll þrjú mörk liðsins.

Þórir Jóhann Helgason var þá ekki í leikmannahópi Eintracht Braunschweig sem steinlá gegn Kaiserslautern, en Braunschweig var búið að bjarga sér frá falli fyrir þennan leik.

Í efstu deild hollenska boltans kom enginn Íslendingur við sögu er þrjú Íslendingalið mættu til leiks. Willum Þór Willumsson var ekki með Go Ahead Eagles vegna meiðsla en liðsfélagar hans unnu FC Volendam á útivelli. G.A. Eagles enda í níunda sæti deildarinnar og fara því í umspilskeppni um síðasta evrópusætið. Þeir mæta NEC Nijmegen í undanúrslitum og geta tryggt sig í forkeppni Sambandsdeildarinnar með að sigra umspilið.

Alfons Sampsted og Kristian Nökkvi Hlynsson sátu þá allan tímann á bekknum og horfðu á liðsfélagana spila fótbolta. Alfons horfði á FC Twente sigra útileik gegn PEC Zwolle á meðan Kristian varð vitni að 2-2 jafntefli Ajax á útivelli gegn Vitesse.

Twente endar í þriðja sæti og Ajax í fimmta sæti. Twente fer því í forkeppni Meistaradeildarinnar og Ajax í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Að lokum kom Óttar Magnús Karlsson við sögu í mikilvægum sigri Vis Pesaro í umspili C-deildarliða á Ítalíu.

Þá fóru einnig leikir fram í kvennaboltanum, þar sem Íslendingalið Örebro gerði markalaust jafntefli við Piteå í efstu deild í Svíþjóð.

Katla María Þórðardóttir, Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Bergþóra Sól Ásmundsdóttir komu allar við sögu í leiknum og voru heppnar að halda hreinu þar sem gestirnir í liði Piteå voru talsvert sterkari.

Örebro náði þó jafntefli og er þetta fyrsta stig liðsins eftir sjö umferðir á tímabilinu.

Alexandra Jóhannsdóttir lék þá allan leikinn í stóru tapi Fiorentina á útivelli gegn meisturum AS Roma í efstu deild ítalska boltans. Fiorentina endar í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig úr 26 leikjum.

Hansa Rostock 1 - 2 Paderborn

Dusseldorf 3 - 2 Magdeburg

Hannover 1 - 2 Holstein Kiel

Kaiserslautern 5 - 0 Braunschweig

Volendam 1 - 2 G.A. Eagles

Vitesse 2 - 2 Ajax

Zwolle 1 - 2 Twente

Vis Pesaro 4 - 3 Recanatese

Orebro 0 - 0 Pitea

Roma 5 - 0 Fiorentina

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner