Man Utd hefur gert tilboð í Mbeumo - Ronaldo með tilboð frá brasilísku félagi - Villa hefur áhuga á Ferran Torres
   mán 19. maí 2025 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Kominn í áttundu sterkustu deild Evrópu - „Vissi að þetta væri risastór gluggi"
Var að ljúka sínu fyrsta tímabili í Belgíu og er nú kominn í áttundu sterkustu deild Evrópu.
Var að ljúka sínu fyrsta tímabili í Belgíu og er nú kominn í áttundu sterkustu deild Evrópu.
Mynd: Zulte Waregem
20 mínútur fyrir Atla að kíkja til Andra Lucasar í Gent.
20 mínútur fyrir Atla að kíkja til Andra Lucasar í Gent.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Zulte Waregem vann belgísku B-deildina í vetur.
Zulte Waregem vann belgísku B-deildina í vetur.
Mynd: Magnús Agnar
Vann með Arnari hjá Víkingi 2020 og 2021.
Vann með Arnari hjá Víkingi 2020 og 2021.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var á sínum tíma á mála hjá Norwich á Englandi og Fredrikstad í Noregi.
Var á sínum tíma á mála hjá Norwich á Englandi og Fredrikstad í Noregi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli fór aftur út í atvinnumennsku eftir tímabilið 2021 þar sem hann vann tvöfalt með Víkingum.
Atli fór aftur út í atvinnumennsku eftir tímabilið 2021 þar sem hann vann tvöfalt með Víkingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék árið 2022 fjóra A-landsleiki.
Lék árið 2022 fjóra A-landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vinstri bakvörðurinn þekkir vel að búa erlendis, hefur verið á Englandi, í Noregi, Danmörku og nú Belgíu.
Vinstri bakvörðurinn þekkir vel að búa erlendis, hefur verið á Englandi, í Noregi, Danmörku og nú Belgíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli lék á sínum yngri árum 36 leiki fyrir yngri landsliðin.
Atli lék á sínum yngri árum 36 leiki fyrir yngri landsliðin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Arnar þekkir mig og veit hvar hann hefur mig, spilaði alla leiki undir honum síðasta tímabilið áður en ég er út til SönderjyskE.'
'Arnar þekkir mig og veit hvar hann hefur mig, spilaði alla leiki undir honum síðasta tímabilið áður en ég er út til SönderjyskE.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Barkarson, leikmaður Zulte Waregem í Belgíu, nýtur lífsins þessa dagana heima á Húsavík. Hann er í sumarfríi þar sem tímabilið í Belgíu er lokið en hann heldur aftur út seinna í þessum mánuði. Hann er í endurkomuferli eftir að hafa farið í aðgerð á öxl í síðasta mánuði og verður í meðhöndlun hjá læknateymi belgíska félagsins.

Atli ræddi við Fótbolta.net um félagaskiptin frá SönderjyskE til Zulte Waregem síðasta sumar, tímabilið í Belgíu, lífið þar, landsliðið og ýmislegt fleira.

„Þetta tímabil byrjaði mjög vel, ég spilaði ekki fyrsta leikinn á tímabilinu, sá leikur tapaðist á heimavelli. Svo kom ég inn og spilaði í kjölfarið 90 mínútur í öllum leikjum, næ að skora í öðrum leiknum, legg upp mark og það gengur vel. Sjálfstraustið var mjög gott og mér leið vel. Ég datt svo aðeins út, fékk heilahristing og missti af leik. Sá sem kom inn fyrir mig stóð sig vel, greip tækifærið og ég missi sætið mitt í smá tíma. Ég fæ tækifæri í kjölfarið en missi svo af fimm leikjum í röð, það var erfiður tími, en svona er þetta bara í fótboltanum," segir Atli.

„Þjálfarinn var alltaf mjög ánægður með mig, tók mig á fund og sagðist sáttur, sagði að ég ætti bara að halda áfram, sagði að ég væri ekkert búinn að missa sætið út af spilamennsku, það var bara annar sem tók sénsinn. Þjálfarinn er fastheldinn, þegar liðið er að spila vel þá heldur hann sig við liðið, lítið um breytingar. Það var pínu erfitt að taka því, langaði að heyra hvort ég gæti breytt einhverju að bætt mig."

„En í heildina var þetta gott tímabil og ég ánægður með það. Zulte Waregem er risastór klúbbur, mikill stuðningur við liðið. Það að hafa unnið síðasta leikinn og fara beint upp, bara geggjað!"


Flottur gluggi og mjög gott skref
Þegar Atli skrifaði undir í Belgíu vissi hann að hann væri kominn í félag sem ætlaði sér að vinna B-deildina.

„Það er það sem selur mér að koma, þetta félag er vant því að vera í efstu deild, féll og var búið að taka eitt tímabil í B-deildinni. Þegar stórir klúbbar fara niður þá hefur stundum tekið tvö ár að komast upp aftur, fyrsta árið fer í vonbrigði og menn halda að þetta sé svo miklu auðveldara en þetta er, deildin er miklu sterkar og erfiðari en menn halda. Ég vissi að þeir voru búnir að taka út vonbrigðin, mér sagt að það ætti að styrkja liðið, hópurinn vær sterkur og það vantaði bara 1-2 púsl, ég verandi annað þeirra. Það seldi mér hugmyndina að koma. Ég vissi að þetta væri risastór gluggi fyrir mig, vissi að ef við færum upp væri ég kominn í áttundu bestu deild í Evrópu, það er bara risastórt. B-deildin var líka mjög sterk, góðir leikmenn í deildinni og endalaust verið að fylgjast með deildunum í Belgíu. Það eru meira að segja leikmenn sem fara beint úr næstefstu deild í stærri félög og standa sig vel. Ég sá þetta sem flottan glugga og skrefið mjög gott."

Vissi að hann væri söluvara - Belgía miklu stærra svið
Varstu að skoða í kringum þig síðasta sumar?

„Já og nei. SönderjyskE var búið að tala við mig. Þeir voru búnir að láta mig vita að ég væri möguleg söluvara. Félagið vill og þarf í raun að selja leikmann nánast í hverjum glugga. Þeir voru búnir að sjá mig sem einn af þeim leikmönnum sem þeir gætu selt á einhvern pening og grætt. Ég var búinn að vera hjá félaginu í tvö og hálft ár sem er þannig séð líftíminn hjá erlendum leikmönnum hjá SönderjyskE, maður er ekkert mikið lengur þar. Ég var búinn að spila 90 mínútur í fyrstu leikjunum á tímabilinu, var því ekki eins og ég væri kominn út í kuldann og hefði þess vegna farið."

„Þetta var bara tækifæri fyrir mig, heyrði af áhuga frá Zulte Waregem sem seldi mér að koma. Ég ákvað að stökkva til. Eftir að ég fór til Zulte Waregem, kom inn í fyrstu leikina, sá ég bara og fann að þetta væri miklu stærri gluggi, þó að ég hafi verið í efstu deild í Danmörku. Sviðið er miklu stærra, miklu fleiri að fylgjast með, miklu meiri athygli á þessu. Þó að þetta væri B-deild fann ég að það var miklu meiri áhugi og umtal í kringum allt saman."


Suðupottur af öllu
Atli bjó í Haderslev í Danmörku, hvernig er breytingin að fara til Belgíu, er munurinn mikill?

„Það kom mér svolítið á óvart. Ég bjó í litlum bæ í Danmörku sem er mjög svipað Íslandi þegar kemur að kúltúr og mat. Belgía, þetta er svolítill suðupottur af öllu, þú ert í Mið-Evrópu, maður er á milli Frakklands, Hollands og Þýskaland er nálægt. Belgíu er skipt upp í tvo hluta; Flanders er hollenski hlutinn og ég bý þar, svo er franski hlutinn þar sem er bara töluð franska. Í Zulte Waregem erum við með 8-9 leikmenn frá Afríku, leikmann frá t.d. Kýpur, mjög alþjóðlegt og meiri flóra einhvern megin heldur en í Danmörku. Í Danmörku skilur maður allt sem er að gerast, þetta er svo nálægt manni, það er aðeins öðruvísi. Mér finnst þetta samt geggjað, mjög skemmtilegt og ég er sáttur. Ég get samt alveg trúað því að ef fólk kæmi hingað þá gæti það verið sjokk."

„Það gengur mjög erfiðlega að læra tungumálið. Það er töluð flæmska, sem er í raun hollenska. Á æfingasvæðinu talar þjálfarinn flæmsku, frönsku, ensku og grísku. Það er ótrúlegt hvað hann er snöggur að skipta á milli. Það eru sumir sem skilja bara frönsku, sumir skilja allt málið fyrir utan eitt, hann talar bara við alla á þessum tungumálum og allt í graut. Það er því svolítið erfitt að pikka upp hollenskuna því þetta verður svo mikil blanda."

„Í Danmörku var bara töluð enska og danska, maður var alltaf að hlusta á dönsku strákana tala sitt mál og ég náði dönskunni fljótt. Í Belgíu er erfiðara að ná þessu, þetta er meira alþjóðlegra og fleiri tungumál í gangi."

„Þetta er mjög skemmtilegt að hafa svona blandaðan kúltúr einhvern veginn. Ég bý í Waregem, er 25 mínútur að keyra til Lille í Frakklandi og 20 mínútur til Gent. Hákon Arnar og Andri Lucas eru sitthvorum megin við mig. Svo er ekki langt til Brussel og Amsterdam rétt hjá. Þetta er skemmtilegra en að búa í Danmörku að því leytinu til að ég get farið hvert sem er í stórar borgir. Það tekur sem dæmi enga stund að skella sér til Parísar og ég hef skellt mér nokkrum sinnum þangað, gaman að geta brotið upp daginn, sérstaklega ef maður fær fólk í heimsókn. Í Danmörku var maður mun lengra frá öllu. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt, gefur manni tækifæri á að gera eitthvað annað en að sitja bara heima á frídögunum."


Erfiður kafli á tímabilinu
Atli nefndi áðan að hann var á bekknum í fimm leikjum í röð. Atli var tekinn af velli í hálfleik gegn fyrrum Íslendingaliðinu Eupen þegar staðan var 0-2 fyrir Eupen. Zulte Waregem endaði á að vinna leikinn. Var þetta bara vondur hálfleikur?

„Ef maður er tekinn af velli í hálfleik hugsar maður alltaf að þetta hafi ekki verið gott, en málið var að þeir fengu rautt spjald rétt fyrir hálfleikinn. Við vorum að tapa 0-2 og við þurftum að vinna leikinn. Þjálfarinn var búinn að ákveða að skipta í þriggja manna varnarlínu og setja meiri kantmann inn á völlinn. Þetta var því ekki út frá frammistöðu, ég var ekki besti leikmaðurinn, en ekki sá lélegasti; var búinn að skapa 3-4 færi í fyrri hálfleiknum. Það átti bara að skipta um kerfi, þjálfarinn talaði svo við mig daginn eftir og sagði að vaninn væri ekki að tala við menn þegar þeir væru teknir út af - menn viti að þeir voru lélegir - en það hafi ekki verið staðan hjá mér. Það átti bara að breyta leiknum eftir rauða spjaldið."

„Svo kom ég ekkert inn á í fimm leikjum eftir þetta, þá fer ég að hugsa að þetta hafi verið frammistöðutengt. Ég talaði við þjálfarann en hann segir að það sé ekki staðan. Hann vildi bara halda í sömu uppstillingu, það var að ganga vel og ég ætti bara að vera þolinmóður, tækifærið myndi koma. Það raun gerðist og ég spilaði flesta leikina sem eftir voru fyrir utan síðasta leikinn. Þetta var erfiður kafli á tímabilinu, það vilja allir spila, en þegar maður er kominn í svona gott umhverfi og lið, þá getur maður dottið á bekkinn ef maður stendur sig ekki alveg nógu vel í einum hálfleik og annar grípur bara tækifærið. Svona er þetta bara, en vissulega erfitt."


Veit ekki hvað félagið ætlar að gera í sumar
Hvernig sér Atli sumarið? Er búið að tala við þig um framtíðina, ef það kemur tilboð þá hvað?

„Það er smá erfitt að lesa í þetta, það var auðveldara í Danmörku þar sem maður vissi hvernig allt var. Belgíski boltinn er svolítið ruglaður að því leyti að það eru miklar og hraðar breytingar reglulega. Ég veit í raun ekki alveg stöðuna mína, sérstaklega af því liðið var að fara upp. Maður veit ekki hversu marga leikmenn félagið ætlar að sækja, hvaða stöður þeir ætla að styrkja. Maður fann 'væbið' betur í Danmörku. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum og félagið er með möguleika á að framlengja sjálfkrafa um eitt ár. Það getur samt allt gerst í sumar. Ég vona að ég verði áfram, líður vel og er sáttur, kærastan er að flytja út til mín í ágúst. En maður veit aldrei hvað gerist. Ég tek því sem kemur og er bara spenntur fyrir því."

Þekkir Arnar vel og möguleikinn ætti að vera góður
Lokakafli viðtalsins tengist A-landsliðinu. Atli er 24 ára og á að baki fjóra A-landsleiki, allt vináttulandsleikir sem voru spilaðir árið 2022. Þar á undan hafði hann spilað 36 yngri landsleiki.

Ertu að horfa í möguleikann á að vera valinn í landsliðshópinn í komandi gluggann?

„Auðvitað, það er klisjusvar, en það er markmiðið. Ég var í kringum landsliðið fyrir þremur árum síðan en aðeins dottið út. Núna er Arnar Gunnlaugs orðinn þjálfari og hann þekkir mig mjög vel, ég er kominn í mjög sterka deild, ef ég spila þar þá ætti möguleikinn að vera mikill. Þetta er undir manni sjálfum komið að spila vel og sýna sig. Vonandi verður maður verðlaunaður ef maður nær því."

„Eins og allir vita er aldrei góður tímapunktur að meiðast eða vera meiddur, en að vera núna meiddur í þrjá mánuði þegar það er júníverkefni þar sem möguleiki væri á því að skoða leikmenn, það er leiðinlegur tímapunktur. Ég veit ekkert hvort ég hefði verið valinn eða ekki, en það var leiðinlegt að það var ekki möguleiki út af meiðslunum. Markmiðið er að komast í landsliðið, en það skiptir mig ekki alveg öllu, einbeitingin er að standa mig vel fyrir mitt lið og hitt kemur ef það kemur."


Gaman ef þeir ná að koma mér í umræðuna
Ísland á marga vinstri bakverði sem eru atvinnumen erlendis. Atli á stuðningsmannahóp sem hefur á samfélagsmiðlum síðustu ár kallað eftir honum í landsliðið. Hefur þú einhvern tímann hugsað: æi strákar, ekki núna?

„Þeir eru oft að fíflast, alveg gaman ef þeir ná að koma manni inn í umræðuna eða eitthvað svoleiðis. Ég er alls ekkert að ýta undir þetta, en er heldur ekkert að segja þeim að stoppa. Þeir mega gera það sem þeir vilja. Stundum kannski er óþarfi að tala um landsliðið ef maður er ekkert búinn að vera spila í sínu liði eða svoleiðis. En ef það myndi gerast að ég væri búinn að vera spila og standa mig vel, og svo eru kannski einhverjir valdir sem eru búnir að spila minna, þá hugsar maður alveg sjálfur að maður ætti allavega að vera í myndinni."

„Þeir mega gera það sem þeir vilja, bara skemmtilegt ef maður helst inn í umræðunni."


Langaði að reyna harka en félagið ræður
Það eru þessir æfingaleikir í júní, varnarleikurinn í heild sinni var ekki góður í síðasta verkefni, var eitthvað bakvið á eyrað á þér að harka áfram með öxlina, fresta aðgerðinni og sjá hvort Arnar myndi velja þig?

„Auðvitað var það alveg hugmynd, en Zulte Waregem á mig og þeir hefðu aldrei tekið í mál að ég hefði ekki farið í aðgerðina á þessum tímapunkti, þannig það var í rauninni aldrei möguleiki. Auðvitað var það hugmynd hjá mér og ég hugsaði þetta alveg, Arnar þekkir mig og veit hvar hann hefur mig, spilaði alla leiki undir honum síðasta tímabilið áður en ég er út til SönderjyskE. Mig langaði alveg að reyna harka og sjá hvort það væri einhver möguleiki, en svona er þetta bara," sagði Atli að lokum.
Athugasemdir
banner
banner