Chelsea skoðar Donnarumma - Newcastle endurvekur áhuga sinn á Ekitike - Douglas Luiz til West Ham?
   fim 19. september 2013 20:16
Magnús Már Einarsson
Haukur Páll: Finnst ég ekki hrinda honum
Haukur Páll Sigurðsson.
Haukur Páll Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Við vorum að spila á móti mjög góðu Eyjaliði á erfiðum útivelli. Það var mikill vindur á annað markið og rigning og það var sætt að koma hingað og ná í þrjú stig," sagði Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals við Fótbolta.net eftir 2-0 sigur liðsins á ÍBV í Pepsi-deildinni í kvöld.

Leik þessara liða var frestað á dögunum vegna veðurs en veðrið var ekki mikið betr aí kvöld.

,,Þegar maður kom heim eftir fyrri ferðina fór maður að hugsa af hverju í andskotanum við spiluðum ekki leikinn. Það voru pollar sem stoppuðu þetta síðast en það var sætt að koma aftur og ná í þrjú stig."

Haukur Páll fékk rauða spjaldið undir lok leiks en Þorvaldur Árnason dómari leiksins vildi meina að hann hefði hrint Gunnari Má Guðmundssyni sem var að rökræða við Fjalar Þorgeirsson.

,,Ég átti ágætis spjall við Þorvald eftir leik og hann vill meina að það að hrinda leikmanni sé rautt spjald. Mér finnst ég ekki hrinda honum," sagði Haukur.

,,Hann (Gunnar Már) grípur í Fjalar og er að bauna yfir hann. Ég kem að þessu og mér finnst ég leggja hendurnar á Gunnar Má, síðan fer hann niður. Ég held að það sjáist í sjónvarpinu að ég kem ekki og hrindi honum. Það er ekkert við þessu að gera núna en þetta er virkilega pirrandi því að mér fannst þetta vera rangur dómur."

Tímabilinu lokið:
Þetta er annað rauða spjaldið sem Haukur Páll fær í sumar sem þýðir tveggja leikja bann. Tímabilið er því búið hjá Hauki sem verður í banni í síðustu tveimur leikjunum gegn KR og Víkingi Ólafsvík.

,,Ég er virkilega pirraður yfir þessu því að fyrra rauða spjaldið sem ég fékk í sumar var algjör þvæla líka. Þar fæ ég seinna gula fyrir leikaraksap þar sem ég renn í teignum. Ég er mjög ósáttur," sagði Haukur.
Athugasemdir
banner