banner
   mán 19. september 2022 11:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gætum séð Aron Einar spila í miðverði - „Erum með sjö varnarmenn"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hafa oft verið fleiri varnarmenn verið í íslenska landsliðshópnum. Í hópnum sem tilkynntur var á föstudag fyrir leiki gegn Venesúela og Albaníu voru fimm varnarmenn og svo er spurning hvernig horft er á Guðlaug Victor Pálsson og Aron Einar Gunnarsson. Aron er í fyrsta sinn í landsliðshópnum síðan í júní í fyrra.

Á fréttamannafundi kom fram að Victor gæti spilað sem miðvörður í verkefninu og þá hefur Aron Einar spilað sem miðvörður hjá félagsliði sínu Al Arabi.

Landliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður út í fáa varnarmenn í viðtali eftir fréttamannafund á föstudag. Er þetta nægur fjöldi varnarmanna?

„Ég er með mögulega sjö varnarmenn. Við skulum ekki gleyma því að Aron Einar er að spila hafsent úti í Katar þannig hann getur líka tekið það að sér. Þegar ég horfi í júnígluggann (fyrr á þessu ári) fannst mér hafsentarnir standa sig mjög vel, var mjög ánægður hvernig Davíð Kristján (Ólafsson) kom inn í hópinn og inn í liðið. Hann var að taka sín fyrstu skref og það er alltaf pressa. Hann gerði það mjög vel finnst mér og er að spila vel hjá sínu félagsliði. Við erum með sjö varnarmenn og erum með nokkuð marga varnarmenn sem geta spilað mismunandi stöður. Höddi (Hörður Björgvin Magnússon) getur spilað hafsent, líka spilað bakvörð og Guðlaugur Victor sama. Við erum alveg vel 'coveraðir' að því leytinu til."

Við gætum því séð Aron Einar í miðverði á næstu 180 mínútum?

„Já, gæti verið," sagði Arnar.

Varnarmenn í hópnum:
Daníel Leó Grétarsson - Slask Wroclaw - 10 leikir
Hjörtur Hermannsson - Pisa - 25 leikir, 1 mark
Hörður Björgvin Magnússon - Panathinaikos - 41 leikur, 2 mörk
Davíð Kristján Ólafsson - Kalmar FF - 7 leikir
Höskuldur Gunnlaugsson - Breiðablik - 5 leikir (kemur inn fyrir Alfons Sampsted)

Guðlaugur Victor Pálsson - D.C. United - 29 leikir, 1 mark
Aron Einar Gunnarsson - Al Arabi - 97 leikir, 2 mörk
Arnar um að spila við Venesúela: Ekkert sem landsliðsþjálfari er að pæla í
Athugasemdir
banner