Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 19. október 2022 14:47
Elvar Geir Magnússon
Heimaleikjabann Víkings fellt úr gildi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áfrýjunardómstóll KSÍ hefur fellt eins leiks heimaleikjabann Víkings úr gildi en 200 þúsund króna sektin stendur óhögguð. Víkingar fengu refsingu frá aganefnd sambandsins vegna hegðunar stuðningsmanna liðsins í bikarúrslitaleiknum í byrjun mánaðarins.

Mat aganefndar var að hegðun stuðningsfólks Víkings í bikarúrslitaleiknum, sem fram fór á Laugardalsvelli, hafi verið vítaverð og hættuleg gagnvart leikmönnum, dómurum þjálfurum og öðrum.

Kveikt var á blysum, sungnir voru níðsöngvar í garð leikmanns FH og einstaklingur truflaði leik er hann hljóp inn á keppnisvöllinn. Loks hafi eftirlitsmaður orðið vitni að sýnilegri ölvun og öðrum óspektum á meðal stuðningsfólks Víkings.

Félagið var dæmt til að leika næsta heimaleik sinn á hlutlausum velli en eftir að það áfrýjaði þessari niðurstöðu var sú refsing sett í bið. Nú hefur hún svo verið felld niður og ljóst að leikur Víkings og KR sem fram fer á sunnudag verður leikinn á Víkingsvelli.

Áfrýjunardómstólnum þykir ekki sýnt fram á að öryggi leikmanna, þjálfara og annarra teljist ótryggt á heimaleikjum Víkings og því sé ekki rétt að dæma félagið í heimaleikjabann. Dómurinn leggur þó ríka áherslu á að um sé að ræða alvarlegt brot og verði þau ítrekuð komi til álita að beita frekari viðurlögum.

Eins og áður segir þá fékk Víkingur einnig 200 þúsund króna sekt. Félagið gekk að þeirri refsingu en áfrýjaði aðeins þeim hluta sem snéri að heimaleikjabanninu.

Í svari Víkings var KSÍ gagnrýnt fyrir framkvæmd leiksins en KSÍ fékk einnig 200 þúsund krónur í sekt frá aganefndinni. KSÍ sá um framkvæmd og öryggisgæslu á leiknum.

„Það var fyrirséð að viðburðurinn yrði mjög stór og að mati félagsins var ekki nógu vel staðið að framkvæmd leiksins. KSÍ þarf að taka ábyrgð á skipulagningu og viðeigandi mönnun gæslufólks, bæði hvað varðar fjölda þeirra en einnig hvað varðar störf þeirra á meðan á viðburði stendur – á því getur Knattspyrnufélagið Víkingur ekki tekið ábyrgð," sagði meðal annars í svari Víkings en áfrýjunardómstóllinn horfði til þess að Víkingur hefði ekki átt að gæta að öryggismálum í umræddum leik.

Hér má sjá dóminn í heild sinni
Athugasemdir
banner