Klukkan 19:30 mætir Ísland liði Slóveníu í úrslitaleik um toppsætið í G-riðli á HM í handbolta. Það er kannski skrítið að segja frá því hér á Fótbolti.net en líkt og nánast í hverjum einasta janúar er runnið á algjört handboltaæði hjá landanum. Og í liði Íslands er eins og margir vita leikmaður sem spilaði á sínum tíma í efstu deild á Íslandi í fótbolta, Viggó Kristjánsson.
Viggó lék upp yngri flokkana í Gróttu og á að baki 12 leiki í Pepsi-deildinni. Þá leiki lék hann með Breiðabliki tímabilið 2013. Alls á hann að baki 112 meistaraflokksleiki með Gróttu, ÍR og Breiðabliki og í þeim skoraði hann 19 mörk. Þá lék hann átta leiki með unglingalandsliðunum á sínum tíma.
Eftir tímabilið 2013 hélt Viggó heim í Gróttu og hjálpaði liðinu að komast upp úr 2. deild og lagði í kjölfarið fótboltaskóna á hilluna til að einbeita sér að handboltanum en hann hafði tekið sér nokkurra ára hlé þar sem fótboltinn var í fyrsta sæti. Árið 2016 fór hann frá Gróttu út í atvinnumennsku og árið 2019 lék hann sinn fyrsta landsleik. Hann er hægri skytta og er byrjunarliðsmaður í landsliðinu.
Viggó lék upp yngri flokkana í Gróttu og á að baki 12 leiki í Pepsi-deildinni. Þá leiki lék hann með Breiðabliki tímabilið 2013. Alls á hann að baki 112 meistaraflokksleiki með Gróttu, ÍR og Breiðabliki og í þeim skoraði hann 19 mörk. Þá lék hann átta leiki með unglingalandsliðunum á sínum tíma.
Eftir tímabilið 2013 hélt Viggó heim í Gróttu og hjálpaði liðinu að komast upp úr 2. deild og lagði í kjölfarið fótboltaskóna á hilluna til að einbeita sér að handboltanum en hann hafði tekið sér nokkurra ára hlé þar sem fótboltinn var í fyrsta sæti. Árið 2016 fór hann frá Gróttu út í atvinnumennsku og árið 2019 lék hann sinn fyrsta landsleik. Hann er hægri skytta og er byrjunarliðsmaður í landsliðinu.
Andri Rafn Yeoman var liðsfélagi Viggós hjá Breiðabliki 2013 og ræddi við Fótbolta.net í dag.
„Hann kemur inn til okkar sem hrikalega spennandi leikmaður. Hann var ekki hefðbundin íslensk fótboltatýpa, var framliggjandi miðjumaður/kantmaður, hávaxinn, yfirvegaður og hrikalega góður í fótbolta. Hann var ekki kraftmesti fótboltamaðurinn þannig lagað, en hrikalega klár og mikill íþróttamaður varðandi hvernig hann sér og hugsar leikinn. Það er mjög eftirtektarvert að hann hafi verið kominn á þetta stig í fótboltanum en náð að skipta yfir og komist þetta langt í handboltanum. Ég hafði rosalega gaman af honum sem fótboltamanni, gat brotið upp leiki og líka toppdrengur; hrikalega gaman að vera með honum í liði og mikill fagmaður. Það hefur verið gaman að fylgjast með honum á þessari vegferð eftir að hann setti fótboltaskóna á hilluna og sneri sér að þessu," segir Andri Rafn.
„Það er alveg sturlað að sjá hann vera kominn á þennan stað. Ég man eftir því að þegar hann var hjá okkur þá fylgdist hann mikið með handbolta. Hann var eitthvað í símanum að fylgjast með Meistaradeildinni í handboltanum, það er ekki algengt í fótboltanum. Hann var náttúrulega búinn að vera í handbolta áður og var með augastað á þessu. Hann var örugglega byrjaður í því ferli að setja fótboltaskóna á hilluna og snúa sér að handboltanum. Maður hugsaði það ekkert alla leið þá, en manni fannst hálfundarlegt, hann var að spila í efstu deild í fótbolta. Þetta er ekki mjög eðlilegur ferill hjá íþróttamanni. En það er bara geggjað og sýnir bara hversu öflugur íþróttamaður hann er."
„Ég myndi halda að hann hafi valið rétt. Ég get ekki ímyndað mér að þetta hafi verið auðveld ákvörðun á sínum tíma, hann verandi rétt um tvítugt, að ákveða að hætta í fótbolta til að snúa sér að handboltanum. Að vera kominn á þennan stað, ég myndi halda að í einhverjum skilningi getum við sagt að þetta hafi verið rétt ákvörðun, en svo er það bara hans að meta það. Utan frá lítur þetta út fyrir að hafa verið frábær ákvörðun og ég efast um að svona gerist sjálfkrafa. Hann hefur þurft að leggja töluverða vinnu á sig og örugglega þurft að vinna upp ýmislegt og breyta sér líkamlega sem íþróttamanni."
Sástu einhvern handboltastíl í honum sem fótboltamanni?
„Það er voðalega auðvelt að búa til einhverjar sögur núna. En í minningunni þá var hann „fintu" leikmaður, hann var ekkert sérstaklega hraður eða kraftmikill, en samt leikinn og gat tekið andstæðinga út úr leiknum einhvern veginn með einhverjum hreyfingum. Hann gat skilið menn eftir með fótavinnu og snúningum á litlu svæði. Ég hef aldrei séð fótboltamann hugsa að hann yrði örugglega góður handboltamaður, en það var kannski hægt að horfa á hann á sínum tíma og hugsa það."
Er krydd að sjá fyrrum liðsfélaga spila á stórmóti?
„Ég er held ég eins og stærsti hluti þjóðarinnar, vakna í janúar og fylgist með handboltanum. Það er alltaf jafn gaman og auðvitað kryddar það kjánalega mikið að hann sé þarna. Maður vill alltaf sjá hann spila sem mest og fylgjast með honum, sjá hann spila stóra rullu. Það er hrikalega gaman að fylgjast með honum. Það er svaka barátta um stöðuna í liðinu, stór nöfn á heimsmælikvarða, Ómar Ingi Magnússon sem dæmi. Það verður gaman að sjá hann á þessu móti fá vonandi ennþá stærra hlutverk," segir Andri.
Athugasemdir