Raphinha og Camavinga til Manchester - Thuram til ensks toppliðs - Newcastle með plan ef Isak fer
   mán 17. mars 2025 11:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Viðræður Fram við Simon Tibbling vel á veg komnar
Simon Tibbling varð Evrópumeistari með U21 landsliði Svía árið 2015.
Simon Tibbling varð Evrópumeistari með U21 landsliði Svía árið 2015.
Mynd: EPA
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Simon Tibbling er að ganga í raðir Fram ef allt gengur eftir, félagið er í viðræðum við sænska miðjumanninn um að hann spili með liðinu í sumar.

Eins og Fótbolti.net greindi frá á fimmtudag þá var Tibbling á reynslu hjá Fram í æfingaferð liðsins á Spáni í síðustu viku. Hann lék með liðinu í æfingaleik gegn norska liðinu Ranheim á föstudag.

„Við erum að ganga frá síðustu endum með Tibbling, viðræður eru langt á veg komnar," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, við Fótbolta.net í dag.

„Hann er sexa/átta, getur leyst bæði inn á miðjunni. Hann passar vel inn í þá hugmyndafræði sem við höfum verið að skoða. Hann kom mjög sterkur inn í hópinn á Spáni með okkur. Hann er með gríðarlega reynslu og hefur spilað með góðum liðum. Hann kom flottur inn í hópinn, sást hvað gæðin eru góð og hann sýndi ofboðslega mikinn áhuga á að koma og spila fyrir okkur. Hann kom vel fyrir, er flottur fótboltamaður og tengdi mjög vel og fljótt við marga af mínum leikmönnum, bæði á æfingasvæðinu og fyrir utan það. Hann smellpassar inn í hópinn," segir Rúnar.

Tibbling er þrítugur og hefur leikið með Groningen, Emmen, Bröndby, Randers, Djurgården og Sarpsborg á sínum ferli. Miðjumaðurinn ræddi við Fotbollskanalen um helgina og sagði frá því að hann hefði spilað klukkutíma með Fram gegn Ranheim, það hefði verið gaman að spila aftur en hann missti mikið úr síðasta tímabili vegna meiðsla. Hann sagði þá að það yrði mikið ævintýri að fara til Íslands, ef af því yrði.

Ef skiptin ganga í gegn, er þjálfarinn þá orðinn nokkuð sáttur með hópinn?

„Maður verður alltaf að vera á tánum og fylgjast með hvað sé í boði. Ég myndi segja að við værum samt langt komnir með þetta ef ekki bara búnir að gera það sem við þurfum að gera. Ég á ekki mikið von á því að það gerist eitthvað annað meira, nema eitthvað óvænt komi upp."

Rúnar nefnir þá að þeir Tryggvi Snær Geirsson, Aron Kári Aðalsteinsson og Óliver Elís Hlynsson séu að snúa til baka eftir meiðsli. „Það eru allir að koma til núna, sem betur fer," segir Rúnar en um þrjár vikur eru í Íslandsmót.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner