Elmar Atli Garðarsson var í vikunni úrskurðaður í tveggja mánaða bann vegna brota á veðmálareglum KSÍ.
Hann veðjaði á leiki í keppnum sem Vestri tók þátt í; leiki í Bestu deildinni, leiki í Lengjubikarnum og leik í Mjólkubikarnum. Það er bannað samkvæmt reglum. Alls voru leikirnir 36 sem hann veðjaði á.
Fótbolti.net ræddi við formann meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, Samúel Samúelsson, í dag.
Hann veðjaði á leiki í keppnum sem Vestri tók þátt í; leiki í Bestu deildinni, leiki í Lengjubikarnum og leik í Mjólkubikarnum. Það er bannað samkvæmt reglum. Alls voru leikirnir 36 sem hann veðjaði á.
Fótbolti.net ræddi við formann meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, Samúel Samúelsson, í dag.
„Við erum búnir að taka þá ákvörðun að áfrýja málinu ekki og sætta okkur við þessa niðurstöðu, en að sjálfsögðu vorum við að vonast eftir styttra banni. Ég hélt hann fengi mánuð út frá þeim gögnum sem ég skoðaði. Það eru engin viðmið og við áttum því erfitt með að sjá hvernig aganefndin myndi bregðast við. Hún segir tveir mánuðir, við sættum okkur við það og Elmar gerir það líka. Menn bara læra af þessu," segir Sammi.
Ósáttir við hversu langan tíma ferlið tók
Það heyrðist af því að Vestramenn hafi verið ósáttir við hversu langan tíma það tók að fá niðurstöðu í málið.
„Samkvæmt gögnunum fær KSÍ fyrst að vita af þessu í enda október/byrjun nóvember. Mér skilst svo að þetta hafi ekki verið tekið til skoðunar hjá aganefndinni fyrr en í desember. Það líður allur desember, allur janúar, allur febrúar og inn í mars áður en Elmari Atla og okkur er tilkynnt um málið. Við viljum meina að það sé full langur tími. En eins og maður segir, þá þýðir ekki að deila við dómarann og við þurfum að sætta okkur við þetta og bara áfram gakk."
Ætla ekki að sækja mann í staðinn
Þarf Vestri að fá mann í staðinn?
„Nei, við ætlum ekki að sækja mann í staðinn fyrir Elmar Atla. Hann er að missa af sjö leikjum og þó að Vestrahópurinn sé ekki stór þá sjáum við ekki fram á að taka mann í staðinn. Við erum með menn innan hópsins sem geta leyst stöðuna. Við finnum einhverja góða lausn á því."
Allir vita hvaða mann hefur að geyma
Elmar Atli var með þann stimpil að vera algjör fyrirmynd fyrir Vestra, verandi fyrirliði liðsins og leiðtogi. Hefur þú áhyggjur af því að það komi einhver annar stimpill á hann eftir þetta mál?
„Ég hef ekki stórar áhyggjur af því. Allir sem þekkja hann, og vita hvaða mann hann hefur að geyma, þeir vita hvernig maður hann er. En jújú auðvitað kom það okkur á óvart, hvort sem það sé hann eða einhver annar, að leikmenn skuli gerast brotlegir gagnvart reglum. Það er náttúrulega slæmt."
„Við vonum að þetta verði öðrum leikmönnum ákveðin vakning og menn átti sig á því hversu alvarlegt það er að veðja á fótboltaleiki í eigin deild. Það bara má ekki."
Leið gríðarlega illa yfir því
Hvernig var samtalið við Elmar Atla þegar þetta kom upp fyrst?
„Það var bara erfitt, hann vissi strax að hann hafði gert mistök og leið gríðarlega illa yfir því. En Elmar er stór og sterkur karakter og kemst í gegnum þetta eins og honum einum er lagið. Auðvitað var þetta bæði áfall fyrir leikmanninn og félagið," segir Sammi.
Athugasemdir