Franska félagið Marseille hefur sent Arsenal formlegt tilboð í enska framherjann Eddie Nketiah.
Foot Mercato og Fabrizio Romano greina frá tilboði Marseille í kvöld en upphæðin kemur ekki fram.
Arsenal vill fá að minnsta kosti 30 milljónir punda fyrir þennan 25 ára gamla framherja.
Á dögunum fékk Marseille enska framherjann Mason Greenwood frá Manchester United og vill það fá Nketiah með honum til að leiða sóknarlínuna.
Roberto De Zerbi, nýr þjálfari Marseille, er mikill aðdáandi Nketiah og hefur hann þegar sannfært leikmanninn um að koma til Frakklands.
Nú er þetta í höndum Arsenal en stjórn Arsenal mun líklega ekki standa í veg fyrir Nketiah sem hefur gert 38 mörk í 168 leikjum fyrir félagið.
Danski miðjumaðurinn Pierre-Emile Höjbjerg er þá á leið til Marseille frá Tottenham. Marseille hefur þegar náð samkomulagi við leikmanninn um kaup og kjör.
Félögin eru að ganga frá viðræðum og er líklegast að hann verði orðinn leikmaður Marseille í næstu viku.
Höjbjerg er 28 ára gamall og verið á mála hjá Tottenham síðustu fjögur ár en áður var hann hjá Bayern München og Southampton.
Athugasemdir