
„Það er ekkert til að fagna svosem, ennþá. Það er hálfleikur í þessu einvígi. Þetta var fín varnarframmistaða hjá okkur í dag. Ég er mjög spenntur að spila aftur á móti þeim á sunnudaginn.“ sagði Aron Elí, fyrirliði Aftureldingar, eftir 2-1 sigur á Leikni í Breiðholtinu í dag.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 2 Afturelding
Aron var mjög sáttur með varnarleikinn hjá sínum mönnum í dag.
„Þetta var kannski aðeins öðruvísi nálgun hjá okkur en það sem við höfum verið að gera í sumar. En við vorum massívir varnarlega og vorum að fá fínar stöður fram á við að reyna að refsa eins og við gátum.“
Það kom Vigfúsi, þjálfara Leiknis, í opna skjöldu hversu aftarlega á völlinn Afturelding féll en Aron var spurður út í það hvort það hafi verið eitthvað upplegg.
„Eins og sást í leiknum að þá var það uppleggið. Leiknir eru með gott lið og þetta er erfiður útivöllur. Þetta gekk ágætlega. Þeir sköpuðu lítið sem var markmiðið með þessu og síðan erum við með stórhættulega menn frammi.“
„Ég held að það verði ekki erfitt að núllstilla sig fyrir leikinn á sunnudaginn. Menn vilja alltaf spila fleiri leiki. Við þurfum bara að njóta þess að spila, þetta verður kannski öðruvísi leikur þar sem við verðum á heimavelli. Við þurfum bara að fara inn í þann leik og gefa allt í þetta og vonandi falla úrslitin með okkur.“ sagði Aron Elí. fyrirliði Aftureldingar, að lokum eftir 2-1 sigur á móti Leikni í Breiðholtinu í dag.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.