Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 20. september 2023 10:29
Elvar Geir Magnússon
Solskjær um viðskilnaðinn við Man Utd: Eins og að yfirgefa fjölskyldu sína
Ole Gunnar Solskjær hefur fengið tilboð frá Sádi-Arabíu.
Ole Gunnar Solskjær hefur fengið tilboð frá Sádi-Arabíu.
Mynd: EPA
Solskjær segist tilbúinn í að snúa aftur í þjálfarastólinn.
Solskjær segist tilbúinn í að snúa aftur í þjálfarastólinn.
Mynd: Getty Images
Solskjær á hliðarlínunni.
Solskjær á hliðarlínunni.
Mynd: EPA
Ole Gunnar Solskjær hefur síðustu tvö ár, eftir að hann yfirgaf Manchester United, einbeitt sér að fjölskyldulífinu og þjálfað yngri lið í heimalandi sínu Noregi.

Hann hefur einnig tekið að sér verkefni fyrir UEFA en telur að nú sé rétti tíminn til að fara aftur á fullu í stjóraferilinn.

„Ég hef fengið tilboð. Nýlega tvö frá Sádi-Arabíu. Þegar þú hefur stýrt Manchester United ertu með þínar eigin forsendur, við hvað þú vilt starfa," segir Solskjær.

„Ég elska England og úrvalsdeildina. Championship-deildin virðist öflugri en nokkru sinni fyrr. En mér finnst ég ekki bundinn Englandi. Kannski væri best að fara í öðruvísi áskorun, nýja reynslu og nýjan mennngarheim og læra nýtt tungumál."

Solskjær segist á næstu vikum ætla að heimsækja Wayne Rooney og David Beckham í Bandaríkjunum og horfa á nokkra leiki þar.

Mjög tilfinningaríkur dagur
Solskjær fór í viðtal við The Athletic og talaði meðal annars um tilfinningaríkan viðskilnað sinn við Manchester United, 4-1 tap gegn Watford í nóvember 2021 leiddi til þess að hann var rekinn.

„Enginn sagði mér neitt en ég vissi í hálfleik gegn Watford hvað myndi gerast. Við litum ekki út eins og Man United lið, leikmenn voru ekki að hlaupa fyrir hvorn annan. Í hálfleik sagði ég leikmönnum að þetta væri líklega í síðasta sinn sem við værum að vinna saman og sagði mönnum að spila af stolti. Við vorum nálægt því að snúa þessu við, þar til Harry Maguire fékk rautt spjald."

Daginn eftir fékk Solskjær skilaboð þar sem hann var boðaður á fund.

„Það var erfiður dagur, eftir að hafa verið hjá félaginu í átján ár og gengið í gegnum alla þessu góðu og slæmu tíma. Ég skutlaði fjölskyldu minni á flugvöllinn áður en skilaboðin bárust. Eftir skilaboðin sagði ég eiginkonu minni að ég gæti verið mættur til Noregs á undan henni," segir Solskjær.

„Þetta var tilfinningaríkur dagur, mjög tilfinningaríkur. Ég hélt að hann yrði það ekki en þetta var eins og að yfirgefa fjölskyldu sína. Ég vildi ræða við alla leikmenn og kveðja. Ég talaði við þjálfarana og starfsliðið. Svo fór ég aftur í tómt hús."

Vantaði bikar
Solskjær gerir upp stjóratíð sína hjá United í viðtalinu.

„Það var eitthvað sem vantaði, það var bikar. Eitt víti hefði getað breytt því og það væri horft öðruvísi á stjóratíð mína. Verkefnið sem ég fékk var að fá stuðningsmenn til að brosa aftur og það var eitthvað í gangi," segir Solskjær sem vitnar í tapið gegn Villarreal í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

„Við vorum á toppi deildarinnar í september 2021. Cristiano Ronaldo kom inn og Raphael Varane og Jadon Sancho einnig. Við styrktum leikmannahópinn og þurftum að taka næsta skref til að berjast um titilinn. Því miður þá heppnaðist það ekki."
Athugasemdir
banner
banner