Semenyo og Neves orðaðir við Man Utd - Atletico hefur áhuga á Rashford
banner
   fös 19. desember 2025 13:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jörundur minnist vinar síns - „Stórmenni er fallið frá"
Age Hareide og Jörundur Áki Sveinsson.
Age Hareide og Jörundur Áki Sveinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hareide féll frá í gær.
Hareide féll frá í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hareide og Jörundur saman á leik í Garðabæ.
Hareide og Jörundur saman á leik í Garðabæ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, skrifaði í dag fallega færslu þar sem hann minntist Age Hareide, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands.

Hareide lést í gær í faðmi fjölskyldu sinnar eftir veikindi. Hann var 72 ára gamall.

Hareide tók við íslenska landsliðinu í apríl 2023 og hætti undir lok árs í fyrra. Hann var hársbreidd frá því að koma landsliðinu á Evrópumótið.

„Ég hitti Age Hareide fyrst á fundi í Osló á skírdag 2023. Strax á þeim fundi vorum við, sem sátum þann fund, sannfærð um að Age Hareide væri rétti maðurinn til þess að taka við þjálfun A-landsliðs karla. Hann kom vel undirbúinn, geislaði af sjálfstrausti, orkumikill og hafði sýn sem okkur hugnaðist. Frá og með þeim fundi varð til samband okkar í milli sem einkenndist af mikilli virðingu og vináttu," skrifar Jörundur Áki.

„Age var skapmikill maður, hafði mikla réttlætiskennd, var vinur vina sinna, bar virðingu fyrir fólki fyrst og fremst, hafði einstaklega góða nærveru, var mikið sjarmatröll og hafði einhvern þann alskemmtilegasta húmor sem ég hef kynnst. Helstu kostir Age voru fyrst og fremst leiðtogahæfileikar, kom fram við fólk af virðingu, trúði því að ef maður hegðar sér þannig, þá fær maður það besta út úr fólki. Hann bar traust til þeirra sem hann vann með, veitti þeim ábyrgð og kenndi okkur margt með sinni reynslu, sem var mikil."

Jörundur rifjar svo upp eina sögu af Hareide.

„Það er hægt að segja margar sögur frá þeim stutta tíma sem Age vann fyrir KSÍ. Þær bíða betri tíma. Þó vil ég minnast á ferð okkar félaganna á Akranes fyrir rúmu ári síðan. Þangað fórum við og heimsóttum þau heiðurshjón, Harald Sturlaugsson og Ingibjörgu Pálmadóttur. Age hafði haft milligöngu um lán frá Den Norske bank, sem hann vann fyrir, til HB á Akranesi árið 1991, lán sem ekki fékkst á Íslandi. Lánsféð var notað til að kaupa færeyska frystitogarann Polarborg II sem fékk svo nafnið Höfrungur III AK 250. Koma skipsins hafði mjög jákvæð áhrif fyrir fyrirtækið. Age var mjög stoltur af þessu og var einstaklega ánægjulegt að fara með honum og hitta þau hjón. Á leiðinni til baka fann ég hvað þetta skipti hann miklu máli að fara og hitta þau hjón og fara yfir söguna."

Hann segir að Hareide hafi áfram haldið sambandi eftir að hann hætti með landsliðið og fylgst vel með strákunum okkar.

„Við tókum mörg erfið samtöl eins og gengur og gerist í þessum heimi, og við vorum ekki alltaf sammála, en við bárum mikla og djúpa virðingu fyrir störfum hvors annars. Hann kenndi mér margt um starfið mitt sem hefur nýst mér vel og verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir," skrifar Jörundur.

„Eftir að Age hætti störfum héldum við áfram sambandi. Hann fylgdist vel með okkur og íslenskum fótbolta úr fjarlægð, liðið skipti hann máli, fólkið hans skipti hann máli. Ég votta fjölskyldu og vinum Age Hareide samúð mína. Stórmenni er fallið frá."

„Takk fyrir allt, Age Friðþjófur Hareide."


Athugasemdir