banner
   fös 21. janúar 2022 22:11
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tveir Danir í Leikni (Staðfest) - Binni Hlö framlengir
Mikkel Dahl, Brynjar Hlöðversson og Mikkel Jakobsen.
Mikkel Dahl, Brynjar Hlöðversson og Mikkel Jakobsen.
Mynd: Leiknir
Leiknismenn eru að styrkja sig fyrir næsta sumar í efstu deild og hafa fengið tvo danska leikmenn sem spiluðu í færeysku deildinni í fyrra til liðs við sig.

Þá hefur lykilmaður liðsins, varnarmaðurinn öflugi Brynjar Hlöðversson, skrifað undir nýjan samning. Brynjar er 32 ára gamall og lék afskaplega vel fyrir Leikni þegar liðið hafnaði í áttunda sæti Pepsi Max-deildarinnar í fyrra og hélt sér uppi í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Sóknarmaðurinn Mikkel Dahl kemur frá HB í Þórshöfn en hann setti markamet í færeysku deildinni. Þessi 28 ára leikmaður spilaði í eitt og hálft ár í Færeyjum og skoraði alls 41 mark í 38 leikjum.

Þá kemur Mikkel Jakobsen frá NSÍ Runavík. Jakobsen er 22 ára og var í margrómuðu unglingastarfi Midtjylland. Hann er vinstri kantmaður og miðjumaður sem lék á sínum tíma fyrir U16 landslið.

Samningar dönsku leikmannana eru til tveggja ára.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner