Liverpool og Man Utd á eftir Simons - Sancho áfram hjá Chelsea - Real Madrid hefur áhuga á Rodri
   mán 21. apríl 2025 13:39
Brynjar Ingi Erluson
„Trent á ekki að byrja leiki á meðan framtíð hans er í lausu lofti“
Jamie Carragher
Jamie Carragher
Mynd: EPA
Trent vill ekki tjá sig um framtíðina
Trent vill ekki tjá sig um framtíðina
Mynd: EPA
Trent Alexander-Arnold, leikmaður Liverpool, á ekki að byrja leiki fyrir liðið á meðan framtíð hans hangir í lausu lofti, en þetta sagði enski sparkspekingurinn Jamie Carragher á Sky Sports.

Samningur Alexander-Arnold rennur út eftir tímabilið og hefur hann til þessa ekki viljað tjá sig um framtíð sína.

Stærstu miðlarnir á Englandi og Spáni hafa greint frá því að hann gangi í raðir Real Madrid á frjálsri sölu í sumar og hafi hafnað fjölmörgum samningstilboðum frá Liverpool.

Carragher segir að nú sé komið að þeim tímapunkti þar sem Arne Slot, stjóri félagsins, þurfi að setja leikmanninn á bekkinn.

„Trent á ekki að byrja leiki ef hann hefur ekki tjáð stjóranum tryggð sína fyrir næsta tímabil. Þetta snýst ekki um „Kveðjum Trent á almennilegan máta“ heldur frekar „Við þurfum að meta það hvort Conor Bradley sé rétti maðurinn fyrir næsta tímabil með því að spila honum í hverri viku“,“ sagði Carragher á Sky.

„Það er tvennt í stöðunni hjá Liverpool: „Verður Conor Bradley númer eitt í hægri bakvarðarstöðuna og við kaupum annan til vara?“ eða „Ætlum við að kaupa hægri bakvörð sem verður númer eitt og Bradley mun þurfa að berjast við hann um stöðuna?“.“

„Strákurinn þarf alla þá reynslu sem hann getur fengið þannig já það besta í stöðunni væri að setja Trent inn á ef þú þarft að vinna leiki, en Bradley á að byrja hvern einasta leik ef Trent hefur ekki skuldbundið sig félaginu,“ sagði Carragher.

Trent sneri aftur til baka úr meiðslum gegn Leicester í gær og skoraði sigurmarkið. Miklar vangaveltur hafa verið um ástríðufullt fagn hans, en Carragher segir að það sé ekki hægt að lesa of mikið í það.

„Nei, í rauninni ekki. Hann hefur ekkert viljað tjá sig um framtíð sína á tímabilinu. Flestir eru á því að hann sé búinn að taka ákvörðun, en það virðist erfitt fyrir hann að gefa hreinskilið svar.“

„Það voru alltaf merki um að þeir Mohamed Salah og Virgil van Dijk vildu vera áfram á meðan samningaferli þeirra var í gangi og það er kannski það sem stuðningsmenn Liverpool eru mest svekktir með í máli Trent.“

„Það segir allt sem segja þarf um stöðu Trent. Hann er heimastrákur, en líklega vita flestir hvað mun gerast,“
sagði Carragher í lokin.
Athugasemdir
banner