Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   fim 21. maí 2015 22:45
Magnús Örn Helgason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Foreldrar í feluleik
Magnús Örn Helgason
Magnús Örn Helgason
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
" Er stelpunni hrósað fyrir að vera „dugleg”, „sterk”, „ákveðin” eða „töff” eða fyrir vera að vera „sæt”, „góð”, „fín” eða „falleg”?"
Mynd: Pæjumót
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Ef það er kalt úti er stráknum sagt að klæða sig betur og bíta á jaxlinn á meðan stelpan er spurð hvort hún vilji ekki bara vera heima og sleppa æfingu. Ef strákurinn er á leið á fótboltamót út á landi er öll fjölskyldan drifin með að fylgjast með kappanum – stolti fjölskyldunnar. Systir hans, sem á að fara á mót með sínum flokki tveimur vikum síðar, fær ekki eins góðar undirtektir á heimilinu vegna sinnar ferðar. Kannski skellir mamma sér með og horfir á ef fjölskyldan er þá ekki búin að plana utanlandsferð eða ættarmót.

Þegar vel gengur hjá strákum í yngstu flokkunum er ef til vill sagt: „Þeir eru farnir að spila hrikalega vel saman" og allir að rifna úr stolti. Jafnvel þykir ástæða til að kveða fastar að orði: „Það er bara eins og íslenska landsliðið sé að spila!" Við önnur tækifæri á mótum hjá yngstu stelpunum heyrist stundum á áhorfendapöllunum: „Æ hvað þær eru dúllulegar, þessar elskur." Jafnvel er kvartað yfir þessu sprikli: „Ótrúlegt að þessi mót þurfi alltaf að vera um helgar!” Þetta er því miður veruleiki kynjanna í fótboltanum, það er í það minnsta mín reynsla eftir að hafa þjálfað stráka og stelpur í yngri flokkunum um nokkurt skeið.

Fyrr á árinu skrifaði Bjarki Már Ólafsson, samstarfsmaður minn hjá Gróttu, pistil á vefsíðu sína sem vakti mikla athygli. Þar benti Bjarki á hve víða væri að finna fordóma í garð kvennafótbolta og að gera mætti betur í að skapa betra og heilbrigðara umhverfi fyrir fótboltastelpur á Íslandi. Þær ættu allt gott skilið.

Eins og Bjarki nefndi réttilega í grein sinni þarf að eiga sér stað viðhorfsbreyting hjá íþróttafélögum og fjölmiðlum. Ég tek heilshugar undir þessa skoðun hans en tel þó að byrja þurfi á réttum stað: Heima í foreldrahúsum.

Það skal tekið skýrt fram að sem betur fer styðja margir foreldrar vel við fótboltastelpurnar sínar. Vandinn er einfaldlega sá að þeir eru ekki nógu margir sem það gera. Ég fullyrði að foreldrar almennt bera ekki nógu mikla virðingu fyrir knattspyrnuiðkun dætra sinna.

Stuðningur að heiman er lykilatriði til að viðhalda áhuga barna á tómstundum sínum. Þá eru meiri líkur á að þau finni hjá sér metnað til að setja sér markmið og stefna hátt og skiptir þar engu á hvaða sviði þau kjósa að hasla sér völl. Ákallið um jafnrétti milli karla- og kvennafótbolta, til dæmis í fjölmiðlum, er veikt þegar fjölskyldur líta í stórum stíl ólíkum augum á knattspyrnuiðkun barna sinna. Sömu sögu er að segja af íþróttafélögunum sem hafa oft á tíðum freistast til að ráða reynslulitla eða áhugalausa þjálfara í stelpuflokkana til að spara nokkrar krónur.

Oft er talað um að stelpur hafi ekki eins mikinn áhuga á fótbolta og strákar. Þær fylgjast jú ekki eins vel með í sjónvarpinu og fara ekki eins oft út í fótbolta að leika sér. Af hverju ætli það sé? Hver eru skilaboðin heima? Er stelpunni hrósað fyrir að vera „dugleg”, „sterk”, „ákveðin” eða „töff” eða fyrir að vera „sæt”, „góð”, „fín” eða „falleg”? Eflaust finnst einhverjum fast að orði kveðið en ég hygg að fyrir marga hljómi þetta kunnuglega.

Nú er fótboltasumarið að ganga í garð þar sem spilað er á sumarmótum um land allt og krakkar frá 11 ára aldri keppa reglulega leiki á Íslandsmóti. Ef þú, lesandi góður, átt dóttur, systur, frænku, ömmu- eða afastelpu sem er að æfa fótbolta þá skora ég á þig að mæta á völlinn og fylgjast með henni spila. Hvetja hana til dáða og spyrja seinna hvað hún sé að tileinka sér á æfingum, hvað henni finnist skemmtilegast við fótboltann og hvaða markmið hún hafi í sambandi við íþróttina. Það er heldur ekki úr vegi að benda á að það geti allar dyr staðið opnar fyrir henni ef viljinn er fyrir hendi.

Gleðilegt fótboltasumar!

Magnús Örn Helgason yfirþjálfari yngri flokka hjá knattspyrnudeild Gróttu

Ath. Þessi skrif eru ekki byggð á rannsóknum heldur upplifun höfundar og samtölum hans við fólk úr fótboltaheiminum.

Athugasemdir
banner
banner