þri 21. júní 2022 11:13
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
U21 mætir Tékkum í umspilinu
Icelandair
Þegar sæti í umspilinu var tryggt fyrr í þessum mánuði.
Þegar sæti í umspilinu var tryggt fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag var dregið í umspilið hjá U21 landsliðum fyrir lokakeppni EM á næsta ári. Ísland var í pottinum og mun liðið mæta Tékklandi heima og að heiman í tveimur leikjum í september.

Í pottinum voru liðin sem enduðu í öðru sæti í undanriðlunum fyrir utan Sviss sem komst beint á lokamótið með besta árangurinn í öðru sæti. Tékkland var með fimmta besta árangurinn af liðunum níu og Ísland níunda besta árangurinn.

Leikirnir fara fram milli 19. og 27. september og fyrri leikurinn verður á heimavelli Íslands. Tékkland fékk 22 stig í tíu leikjum í riðli G í undankeppninni. Ísland fékk átján stig í tíu leikjum í riðli D í undankeppninni.

England var toppliðið í riðli Tékklands og töpuðu Tékkar báðum leikjunum gegn Englendingunum. Portúgal var toppliðið í riðli Íslands. Portúgalir unnu nauman sigur á Íslendingum á Víkingsvelli og jafntefli varð í leik liðanna í Portúgal.

Adam Karabec og Daniel Fila voru markahæstir hjá Tékkum í undankeppninni. Tékkland hefur einu sinni unnið EM í þessum aldursflokki og var það árið 2002.

Lokakeppnin verður svo haldin í Rúmeníu og Georgíu 21. júní - 8. júlí næsta sumar. Heimaliðin fá sjálfkrafa þátttökurétt en auk þeirra eru þessi lönd búin að tryggja sér sæti í lokakeppninni:

Belgía, England, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Portúgal, Holland, Noregur, Spánn og svo Sviss.
Athugasemdir
banner
banner
banner