Risaverðmiði á Isak sem er á óskalista Chelsea - Bayern ætlar að reyna við Onana - Áhugi frá Sádi-Arabíu á Garnacho
   fös 21. júní 2024 22:53
Ívan Guðjón Baldursson
Koeman ósáttur: Þetta er löglegt mark
,,Jafntefli sanngjörn niðurstaða"
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ronald Koeman, landsliðsþjálfari Hollendinga, var reiður eftir markalaust jafntefli við Frakkland í stórleik í riðlakeppni Evrópumótsins fyrr í kvöld.

Hollendingar komu boltanum í netið í síðari hálfleik en markið ekki dæmt gilt vegna rangstöðu, þar sem enska dómarateymið mat það svo að Denzel Dumfries hefði haft áhrif á Mike Maignan, markvörð Frakklands.

Koeman er ósammála þessu og er hann bæði ósáttur með ákvörðunina og hversu langan tíma það tók að taka hana.

„Dumfries er í rangstöðu en hann er ekki að trufla markvörðinn. Þetta er löglegt mark," sagði Koeman. „Maignan reyndi ekki við boltann því hann var aldrei að fara að ná til hans, það var ekki útaf því að Dumfries stóð í vegi fyrir honum.

„Ég skil samt ekki af hverju dómararnir þurftu að vera svona lengi að taka þessa ákvörðun. Ef þetta er rangstaða af hverju þarftu að eyða fimm mínútum í að snerta eyrað þitt? Ef þú ert í svona miklum vafa, þá áttu að gefa mark!"


Holland er með fjögur stig eftir sigur gegn Póllandi í fyrstu umferð og mæta lærisveinar Koeman erfiðum Austurríkismönnum í úrslitaleik í lokaumferðinni. Koeman telur að sínir menn þurfi að bæta ýmislegt fyrir þann leik.

„Við vorum ekki nógu góðir á köflum í dag. Pressan var ekki nógu góð og við héldum boltanum illa. Það var alltof mikið pláss á milli línanna hjá okkur.

„Frakkar fengu betri færi heldur en við, þó þau hafi ekki verið mörg, en að mínu viti þá átti markið okkar að standa. Þar af leiðandi finnst mér jafntefli vera sanngjörn niðurstaða."


Sjáðu atvikið
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner