Magnús Gylfason viðurkenndi að liðið sitt hafi ekki átt góðan dag í dag þegar þeir mættu Fylkismönnum. Valur varð fyrsta liðið sem tapaði gegn Fylki í Pepsi-deildinni í ár. Valsmenn lentu 0-3 undir en minnkuðu muninn undir lokin. Arfa slök frammistaða vægast sagt.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 3 Fylkir
,,Þetta var slakur leikur frá upphafi til enda. Ég á reyndar eftir að rýna aðeins meira í þetta en ég held að þetta sé fyrsti leikurinn sem við erum lakari aðilinn allan leikinn," sagði Magnús en Valsmenn hafa nú ekki sigrað í fimm leikjum í röð.
,,Það er auðvitað áhyggjuefni. Annars lít ég á heildarmyndina og við höfum verið að spila vel. Við erum búnir að spila tólf leiki og þetta er fyrsti leikurinn sem við erum slakari aðilinn að mínu viti. Það hefur vantað herslumuninn í síðustu leikjum."
Valsmenn voru án þriggja lykilmanna á miðjunni, Iain Williamson, Hauk Páls og Rúnars Más og það er skarð sem erfitt er að fylla.
,,Það vantaði þá í dag en valdi samt leikmenn sem áttu að vera klárir í þetta en svo var ekki. Það var enginn sem stóð sig vel í dag fannst mér, sagði Magnús að lokum.
Viðtalið í heild sinni er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir