
Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna, reiknar með hörkuleik þegar Ísland mætir Svíþjóð í toppslag í undankeppni EM á Laugardalsvelli klukkan 18:00 annað kvöld.
Ísland og Svíþjóð eru með tólf stig eftir fjóra leiki og berjast um efsta sæti riðilsins. Efsta sætið skilar beint sæti á EM í Englandi árið 2022 en liðin með bestan árangur í 2. sæti í riðlunum fara í umspil um sæti á EM.
Ísland og Svíþjóð eru með tólf stig eftir fjóra leiki og berjast um efsta sæti riðilsins. Efsta sætið skilar beint sæti á EM í Englandi árið 2022 en liðin með bestan árangur í 2. sæti í riðlunum fara í umspil um sæti á EM.
„Svíar eru með líkamlega sterkt lið og þær eru góðar í föstum leikatriðum eins og við. Þetta er lið með góða rútínu og reynslumikið lið sem hefur verið lengi saman. Þetta er heilt yfir sterkt lið. Við erum algjörlega í stakk búin til að mæta því," sagði Jón Þór á fréttamannafundi í dag.
„Það hefur verið stígandi hjá okkur í þessum leikjum og við erum full tilhlökkunar að taka á móti þeim á morgun og algjörlega tilbúin í það."
Jón Þór var spurður að því hvort hann reikni með mörgum breytingum á sænska liðinu frá því að það vann Ungverjaland 8-0 í síðustu viku.
„Ég reikna ekki með mörgum breytingum frá síðasta leik sínum. Maður veit aldrei. Við getum ekki farið of djúpt í að hugsa um það. Við þurfum að einbeita okkur að okkar liði. Þetta hefur verið erfitt í Covid tímabilinu því það hefur ekkert verið spilað síðan í mars. Við hugsum um okkur og einbeitum okkur að okkar liði og leikmönnum," sagði Jón Þór ákveðinn.
Athugasemdir