Tvö úrvalsdeildarlið spiluðu í dag síðasta æfingaleikinn áður en enska úrvalsdeildin fer aftur af stað á mánudag.
Tottenham gerði 1-1 jafntefli við franska liðið Nice. Írski bakvörðurinn Matt Doherty gerði eina mark Tottenham í leiknum en það vantaði nokkra leikmenn í liðið.
Harry Kane var ekki með liðinu en Heung-Min Son var hins vegar mættur og spilaði fimmtán mínútur. Eric Dier og Ben Davies voru báðir í liðinu.
Leeds tapaði fyrir Mónakó, 4-2. Breel Embolo, aðalmaður Sviss á HM, skoraði tvö fyrir Mónakó.
Robin Koch og Joe Gelhardt gerðu mörk Leeds í leiknum.
Lille vann Napoli örugglega, 4-1. Jonathan David skoraði og lagði upp fyrir franska félagið. Jonathan Bamba, Adam Ounas og Bafode Diakite komust einnig á blað.
Ethan Mbappe, bróðir Kylian Mbappe, kom aftur við sögu með aðalliði Paris Saint-Germain er liðið vann Quevilly Rouen, 3-1. Hinn 17 ára gamli Ilyes Housni skoraði tvö fyrir PSG og þá gerði Ismael Gharbi eitt. Ethan Mbappe kom inná þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.
Athugasemdir