Jeremie Frimpong, leikmaður Leverkusen, hefur beðið stuðningsmenn Atletico Madrid afsökunar fyrir að sparka í blómvönd sem er staðsettur við hornfána á Metropolitano, heimavöll Atletico.
Leikmenn Leverkusen fögnuðu marki Piero Hincape í 2-1 tapi liðsins í gær og í fagnaðarlátunum sparkaði Frimpong í vöndinn. Stuðningsmenn Atletico voru allt annað en ánægðir með það og Jose Maria Gimenez, varnarmaður liðsins, réðst að honum.
„Ég lærði um hefðina á bakvið blómvöndinn á Metropolitano eftir leikinn í gær. Ég vissi ekki af þessu og ég fór fram úr mér í fögnuðinum og gerði mistök," skrifaði Frimpong á samfélagsmiðlinum X.
Blómvöndurinn hefur verið á sínum stað frrá 1996 en það var stuðningsmaður að nafni Margarita Luengo sem setti hann þarna til minningar um Milinko Pantic sem var þekktur fyrir hornspyrnurnar sínar.
„Ég bið stuðningsmenn Atletico afsökunar og sérstaklega Margariita," skrifaði Frimpong á spænsku.
Athugasemdir