Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
banner
   fim 22. febrúar 2024 22:53
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Roma sló Feyenoord út í þriðja sinn á þremur árum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Roma 1 - 1 Feyenoord (2-2 samanlagt)
0-1 Santi Gimenez ('5)
1-1 Lorenzo Pellegrini ('15)

AS Roma tók á móti Feyenoord í 24-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld, en þetta var í þriðja sinn sem liðin mættust á þremur árum í útsláttarkeppni í Evrópu.

Leikurinn fór afar fjörlega af stað þar sem Santi Gimenez var búinn að taka forystuna fyrir Feyenoord snemma leiks eftir mikinn rugling í vítateig Rómverja, þar sem boltinn skaust að lokum af Gimenez og í netið.

Bæði lið fengu góð færi strax í kjölfarið, áður en Lorenzo Pellegrini fyrirliði Roma jafnaði með glæsilegu skoti utan vítateigs.

Rómverjar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að taka forystuna. Síðari hálfleikurinn var algjörlega í járnum þar sem miðjumoðið var við völd og neyddist dómarinn til að framlengja viðureignina.

Hvorugu liði tókst að skora í framlengingu, sem var þó líflegri en seinni hálfleikurinn, og því var flautað til vítaspyrnu.

Í vítakeppninni var Romelu Lukaku fyrstur til að klúðra en sviðsljósið beindist að Mile Svilar í kjölfarið. Markvörðurinn gerði sér lítið fyrir og varði tvær spyrnur í röð frá Feyenoord á meðan samherjar hans skoruðu af vítapunktinum.

Roma vann vítakeppnina 4-2 og fer því áfram í næstu umferð. Þetta er í þriðja sinn á þremur árum sem Roma slær Feyenoord naumlega úr leik í Evrópu. Afar svekkjandi fyrir Hollendingana.
Athugasemdir
banner
banner
banner