sun 22. mars 2020 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Andri Rúnar og Arnór hjálpa Helsingborg með miðakaupum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sænski boltinn er í pásu vegna kórónuveirunnar og hefur Helsingborg hrint af stað fjáröflunarátaki.

Helsingborg mætir Helsingborg í æfingaleik næsta fimmtudag sem verður spilaður fyrir luktum dyrum. Bein útsending verður þó frá leiknum og geta áhorfendur fylgst með heima í stofu.

Félagið sér fram á fjárhagsvandræði vegna veirunnar og hvetur stuðningsmenn til að kaupa miða á leikinn. Markmiðið er að selja alla 16 þúsund miðana á völlinn og hafa margir fyrrum leikmenn liðsins lagt félaginu lið með að kaupa nokkra miða. Einn miði kostar 50 sænskar krónur, tæplega 700 krónur íslenskar.

Andri Rúnar Bjarnason og Arnór Smárason eru meðal þeirra sem hafa keypt miða á leikinn, en þeir keyptu fimm miða hvor. Andri Rúnar gerði góða hluti hjá Helsingborg og er nú á mála hjá Kaiserslautern í þýsku C-deildinni. Arnór Smárason var einnig öflugur á tíma sínum hjá Helsingborg og leikur nú fyrir Lilleström í Noregi.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner