Tveir bráðefnilegir Brassar munu reyna fyrir sér með Chelsea á næstu leiktíð og virðast þeir vera orðnir gífurlega spenntir fyrir næsta kafla ferilsins.
Annar þeirra er miðjumaðurinn öflugi Andrey Santos sem leikur á láni hjá Strasbourg í Frakklandi og hefur verið að gera frábæra hluti.
Santos er 20 ára gamall og hefur komið að 12 mörkum í 26 leikjum með Strasbourg á tímabilinu. Hann var lykilmaður í U20 landsliði Brasilíu þar sem hann skoraði 8 mörk í 17 leikjum og hefur hann tekið þátt í einum leik með A-landsliðinu.
Hinn er hægri kantmaðurinn Estevao Willian, sem er kallaður 'Messinho'. Estevao er aðeins 17 ára gamall en hann verður 18 ára í apríl og flytur til Englands í sumar.
Estevao er mikilvægur hlekkur í sterku liði Palmeiras þrátt fyrir ungan aldur og hefur nú þegar spilað fjóra leiki fyrir A-landslið Brasilíu.
„Estevao er toppgæða leikmaður, hann er í heimsklassa. Hann mun ná langt á ferlinum og við getum myndað frábært brasilískt tvíeyki hjá Chelsea. Ég er mjög spenntur fyrir því," sagði Santos við ESPN Brazil.
Athugasemdir