
„Ég held að allar þær spár sem ég hafi séð séu á þessa leið svo það kemur ekki á óvart, nei. En auðvitað er það á okkur að afsanna þessa spá," segir Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Völsungs.
Húsvíkingum er spáð neðsta sæti Lengjudeildarinnar í spá þjálfara og fyrirliða fyrir mót.
Húsvíkingum er spáð neðsta sæti Lengjudeildarinnar í spá þjálfara og fyrirliða fyrir mót.
„Tímabilið leggst hrikalega vel í okkur Völsunga. Við erum komnir á þetta nýja svið og getum ekki beðið eftir að sýna hvað í okkur býr," segir Alli Jói.
Horfir með hlýju og þakklæti til baka
Völsungur komst upp úr 2. deild í fyrra eftir að hafa verið spáð níunda sæti fyrir mót. Þeir komu á óvart og eru núna aftur mættir í Lengjudeildina eftir að hafa spilað þar síðast árið 2013.
„Maður horfir auðvitað með hlýju og þakklæti til baka. Það eru margar dásamlegar minningar og augnablik sem við munum aldrei gleyma. En maður getur ekki lifað í fortíðinni. Við þurfum að nota þessar minningar sem bensín til þess að verða enn betri og eiga annað alvöru tímabil núna í sumar," segir Alli Jói.
Stemningin hefur verið góð á Húsavík eftir að liðið komst upp.
„Ég upplifi að fleira fólk sé að mæta á leikina hjá okkur og að áhuginn á liðinu sé meiri. Ég allavega ætla rétt að vona að fólk mæti á leikina og styðji við bakið á okkur því það bæði hjálpar og gerir allt svo mikið skemmtilegra."
Eiga eftir að styrkja sig
Hvernig hefur gengið hjá ykkur í vetur?
„Bara upp og ofan. Sum úrslit eru skrítin og ekkert spes á meðan við erum að gera mjög vel í öðrum leikjum. En heilt yfir tel ég að þetta sé allt í rétta átt. Mikið af heimagaurum að spila stóra rullu á þessum tímapunkti sem mun án efa nýtast félaginu gríðarlega vel í sumar og svo ennþá lengra inn í framtíðina," segir Alli Jói.
Það hafa verið nokkrar breytingar á leikmannahópnum í vetur, en þær eru ekki miklar. Hópurinn er nánast sá sami og í fyrra.
„Staðan á hópnum er bara fín. Þeir leikmenn sem hafa verið í stóru hlutverki í vetur eru á góðum stað og tilbúnir í að byrja tímabilið. Tveir til þrír eru í kapphlaupi við tímann fyrir fyrsta leik og svo eigum við eftir að styrkja okkur áður en glugginn lokar."
„Við höfum misst einhverja lykilmenn síðan á síðasta tímabili en það hafa komið inn sterkir leikmenn á móti sem styrkja okkur mikið. Ég verð sáttur þegar mótið byrjar, við verðum 100% klárir þá."
Skrítið að hann sé í hinu liðinu
Völsungur spilaði á dögunum við Þrótt í Mjólkurbikarnum og var það hörkuleikur sem endaði með sigri Þróttar.
„Það að fá heimaleik við lið í okkar deild í bikarnum þetta 2 vikum fyrir mót var geggjað. Við áttum kannski ekkert fullkomin leik en gerðum margt vel og annað sem við eigum eftir að laga. En ég er allavega ennþá bjartsýnni eftir leikinn en ég var fyrir hann.
En auðvitað var svekkjandi að ná ekki að halda út og vinna leikinn á 90 mínútum," segir Alli Jói.
Í liði Þróttar var leikmaður ársins í 2. deild í fyrra, Jakob Gunnar Sigurðsson. Hann var ótrúlegur fyrir Völsung síðasta sumar en ákvað að róa á önnur mið í vetur.
„Auðvitað var skrítið að vera að spila á Húsavík og Jakob í liði gestanna en svona er fótboltinn bara. Í fyrra vonuðumst við til að hann skoraði í hverjum leik og núna vorum við að reyna að koma í veg fyrir það," segir þjálfarinn.
„Hann er auðvitað frábær leikmaður sem mér þykir ofboðslega vænt um og ég vona bara að honum eigi eftir að ganga vel og ná sem lengst."
Leikir upp á líf og dauða
Það má svo sannarlega búast við spennandi og áhugaverðri Lengjudeild í sumar.
„Eftir að nýtt fyrirkomulag kom í þessa deild hefur hún alltaf verið jöfn og spennandi. Ég á ekki von á öðru á þessu tímabili en að það sama verði upp á teningnum."
segir Alli Jói.
„Það er alltaf markmið hjá Völsungi að ungir leikmenn verði betri og taki stærra hlutverk í liðinu frá ári til árs. Það mun ekki breytast þó að liðið sé komið í Lengjudeildina. Meira verður ekki sagt hér annað en að við ætlum okkur stóra hluti."
Eitthvað að lokum?
„Allir í gallana."
Athugasemdir