þri 22.apr 2025 17:15 Mynd: 640.is - Hafþór Hreiðarsson |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 12. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í neðsta sæti í spánni er Völsungur sem er að koma upp úr 2. deild.
Húsvíkingar eru komnir upp í Lengjudeildina eftir frekar langa fjarveru.
Mynd/640.is - Hafþór Hreiðarsson
Hvernig mun ganga að fylla í skarðið sem Jakob Gunnar skilur eftir sig? Hann raðaði inn mörkunum í fyrra.
Mynd/Fótbolti.net - Hulda Margrét
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Völsungur, 24 stig
12. Völsungur
Í neðsta sæti í spánni eru Húsvíkingar en það er ekki mikil trú á þeirra liði fyrir komandi sumar; það voru nánast allir með þá í neðsta sæti þegar þeir spáðu í deildina. Þeir elska samt að afsanna spár en þeim var spáð níunda sæti í 2. deild í fyrra. Það er langt síðan Völsungur lék síðast í næst efstu deild en það gerðist síðast árið 2013 er þeir féllu með tvö stig og -70 í markatölu. Fyrsta markmið verður eflaust að gera betur en þá og miðað við bikarleik þeirra gegn Þrótti á dögunum, þá ættu þeir að geta gert það. Völlarar hafa lengi verið í 2. deild og taka nú skrefið upp í Lengjudeildina en þeir verða vonandi ekki fallbyssufóður.
Þjálfarinn: Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, Alli Jói, þjálfar bæði karla- og kvennaliðið á Húsavík og hefur gert það síðustu árin. Hann er núna á leið inn í sitt þriðja tímabil sem aðalþjálfari Völsungs. Aðalsteinn spilaði lengi með Völsungi og er með stórt hjarta fyrir félaginu, en hann er mjög svo efnilegur og spennandi þjálfari sem er að taka sín fyrstu skref á Húsavík.
Álit Badda
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verði ekki eins og árið 2013
„Húsvíkingar virðast vera að fara inn í þetta mót með veikara lið á pappír en inn í 2. deildina í fyrra, sem gefur mér ákveðna tilfinningu fyrir því að þeir stefni á að reyna að stækka og styrkja sínar grunnstoðir og uppöldu stráka á þessum forsendum í ár, sem er bara frábært ef þeir eru tilbúnir í það og ég efast ekki um að Alli Jói viti nákvæmlega hvað hann er að gera með þetta verkefni."
„Ég bæði trúi og vona að þetta tímabil verði ekki eins og árið 2013, það myndi ekki gera mörgum leikmönnum, aðstandendum og stuðningsmönnum neinn greiða."
„Það er sterkt fyrir þá að halda Xabi og Inigo áfram ásamt því að bæta við Elfari Árna, Elvari Baldvins og fá inn sterka lánsmenn frá KA og Þór í Ívari Arnbro og Davíð Erni en missirinn í Jakobi Gunnari og Juan Guardia er stór fyrir þá miðað við þeirra áhrif á leik liðsins í fyrra."
Leiðin úr Lengjunni er hlaðvarpsþáttur tileinkaður næst efstu deild karla í fótbolta. Þáttarstjórnendur eru Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson og Sölvi Haraldsson. Þeir velja tvo lykilmenn og einn sem gaman verður að fylgjast með úr hverju liði í Lengjudeildinni.
Lykilmenn: Elfar Árni Aðalsteinsson og Ívar Arnbro Þórhallsson
Það mun mikið mæða á Elfari Árna í sumar. Völsungur missti mörg mörk með brottför Jakobs Gunnars í höfuðborgina og er Elfari Árna ætlað að hjálpa til með að stoppa í þau göt. Hann getur vel skorað mörk og verður áhugavert að sjá hvort hann nái að reima á sig markaskóna í sumar á Húsavík. Ívar er ungur og gríðarlega efnilegur markvörður sem Völsungur fær á láni frá KA. Hefur þrátt fyrir ungan aldur náð sér í þokkalegustu reynslu. Ásamt því að eiga leiki með KA í Bestu deildinni þá var hann á láni hjá Hetti/Huginn á síðasta tímabili. Þá á hann 16 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Verður virkilega áhugavert að fylgjast með hans framþróun í sumar.
Gaman að fylgjast með: Jakob Héðinn Róbertsson
Tvítugur strákur uppalinn á Húsavík. Skoraði fimm mörk í 17 leikjum í fyrra og skoraði þrjú mörk í þremur leikjum í Mjólkurbikarnum í ár. Hann fær vafalaust stærra og mikilvægara hlutverk núna í sumar. Efnilegur strákur sem getur vel blómstrað í liði Völsungs þetta tímabilið.
Komnir:
Elfar Árni Aðalsteinsson frá KA
Elvar Baldvinsson frá Vestra
Ívar Arnbro Þórhallsson á láni frá KA
Farnir:
Jakob Gunnar Sigurðsson í KR
Juan Guardia í Þór
Ólafur Örn Ásgeirsson til HK (var á láni)
Samningslausir:
Steinþór Freyr Þorsteinsson (1985)
Óskar Ásgeirsson (2000)

Fyrstu þrír leikir Völsungs:
3. maí, ÍR - Völsungur (Egilshöll)
10. maí, Njarðvík - Völsungur (Rafholtsvöllurinn)
17. maí, Selfoss - Völsungur (JÁVERK-völlurinn)
Athugasemdir