sun 22. maí 2022 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Rangnick um Ronaldo: Hann er ekkert pressuskrímsli
Mynd: EPA
Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri Manchester United, viðurkennir að hann hafi þurft að gera málamiðlanir varðandi stöðu Cristiano Ronaldo og fleiri í liðinu.

Rangnick tók við United til bráðabirgða undir lok árs en þeir sem vita eitthvað um Ralf Rangnick er að hans leikstíll byggist á mikilli ákefð. Pressa boltann hátt uppi og vinna hann eins fljótt og mögulegt er eftir að boltinn tapast.

Stjórinn vissi að það gæti orðið vandamál í liðinu enda þónokkrir sem eru ekki vanir því að spila slíkt kerfi. Cristiano Ronaldo er einn af þeim.

Hann hentar ekki fullkomlega inn í þann leikstíl en náði þrátt fyrir það að skora 18 mörk í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er sá sem er fyrir mestum vonbrigðum hvað það varðar og svekktur yfir. Á einhverjum tímapunkti þurftum við að fara milliveginn og sækja aðeins dýpra. Hvernig gátum við verið vissir um að sóknarmennirnir kæmust í stöður?"

„Cristiano skoraði nokkur mörk en að sama skapi þá er Cristiano, og ég er alls ekki að skella skuldinni á hann því hann gerði frábærlega í þessum leikjum, en hann er ekki pressuskrímsli. Hann er ekki þessi leikmaður, jafnvel á yngri árum, þá var hann ekki sá leikmaður sem var grátandi og öskrandi „Húrra, hitt liðið er með boltann, hvar getum við unnið boltann?"

„Það var alveg eins með nokkra aðra leikmenn þannig við urðum að fara milliveg á einhverjum tímapunkti og kannski gerðum við of margar breytingar, það er líka möguleiki, en eins og ég sagði við fundum aldrei jafnvægið á því hvað við þurfum að gera með boltann og án boltans,"
sagði Rangnick.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner