Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 22. júní 2022 12:40
Elvar Geir Magnússon
Blikar búa til fyrirmyndir - Liðin á N1-mótinu nefnd eftir leikmönnum
Omar Sowe á æfingu í morgun.
Omar Sowe á æfingu í morgun.
Mynd: Aðsend
Í næstu viku hefst stærsta mót hvers árs hjá fótboltastrákum á Akureyri þegar N1-mótið verður sett á miðvikudaginn.

Á Fífuvöllum í Kópavogi í dag var Breiðablik í óða önn í undirbúningi fyrir mótið og fóru nýstárlegar leiðir. Leikmenn og þjálfarar meistaraflokks karla sem tróna á toppi Bestu deildarinnar mættu og stýrðu æfingunni og sýndu lipra takta í spilinu.

Öll fjórtán lið Breiðabliks á N1-mótinu eru nefnd eftir leikmönnum Breiðabliks og er það í fyrsta sinn sem það er gert á þessu móti.

„Með þessu erum við fyrst og fremst að búa til mikilvægar fyrirmyndir fyrir strákana og mynda tengsl við þetta góða lið sem við eigum. Enda leyndi sér ekki gleðin þegar leikmennirnir og þjálfararnir mættu á æfinguna okkar í morgun. Auk þess teljum við mikilvægt að færa fókusinn af tölum og bókstöfum sem liðin heita og yfir á fótboltann og fyrirmyndirnar," segir Gunnar Birgisson einn þjálfara flokksins.

„Og ef við horfum á þetta frá hinni hliðinni er nauðsynlegt að stækka nöfnin í þessari geggjuðu deild og búa til stjörnur. Það er löngu tímabært."

Þjálfarar flokksins eru: Guðjón Gunnarsson, Jón Smári Ólafsson, Bjarni Harðarson, Bjartur Þór Helgason og Gunnar Birgisson.

N1-mót KA hefst eins og áður sagði á miðvikudaginn næsta og stendur yfir í fjóra daga. Þar leika yfir 1000 lið á fjölmörgum völlum og því sannkölluð fótboltaveisla fram undan á Akureyri.
Athugasemdir
banner