Tómas Þór Þórðarson segist hafa verið með blendnar tilfinningar varðandi upplegg Keflavíkur þegar liðið tapaði 1-2 gegn Víkingum í Pepsi Max-deildinni á mánudaginn.
Rætt var um leikinn í Innkastinu en nýliðarnir komust yfir en töpuðu að lokum 1-2.
Tómas var hrifinn af uppleggi Keflavíkur í fyrri hálfleik en fannst það óskiljanlegt í seinni hálfleik.
Rætt var um leikinn í Innkastinu en nýliðarnir komust yfir en töpuðu að lokum 1-2.
Tómas var hrifinn af uppleggi Keflavíkur í fyrri hálfleik en fannst það óskiljanlegt í seinni hálfleik.
„Ég var mjög hrifinn af Keflavík í fyrri hálfleiknum, voru að henda sér fyrir allt og þeir Siggi Raggi og Húni eru flottir. Það sem þeir lögðu upp með svínvirkaði og það var dauði og djöfull fyrir Víkinga að reyna að brjóta þá á bak aftur," segir Tómas.
„Eins hrifinn og ég var á framkvæmdinni hjá Keflavík í fyrri hálfleik, ef ég væri Keflvíkingur væri ég nokkuð brjálaður út í Húna og Sigga Ragga. Keflvíkingar höfðu leyft Víkingum í fyrri hálfleik að koma á sig og sótt svo hratt fram, en í seinni hálfleik ákvað liðið bara að sparka boltanum hátt og langt. Ekki upp í hornin heldur á síðasta þriðjung þar sem Sölvi Geir Ottesen flaug eins og flugstjóri hjá Ryanair og skallaði allt í átt að markinu hinumegin."
Sölvi og Kári Árnason áttu ekki í neinum vandræðum með háloftabolta Keflvíkinga.
„Ég hélt að þetta væri eitthvað djók en þeir hættu ekki að sparka honum langt. Ég held að Sölvi hafi verið með svona 25 skallabolta og þetta var orðið eins og eitthvað sirkusatriði. Ég vissi ekki hvað var í gangi."
Keflvíkingar hafa átt flotta leiki á tímabilinu en eru nú búnir að tapa tveimur leikjum í röð og eru þremur stigum fyrir ofan fallsæti.
„Það vantar aðeins meiri gæði í þetta lið og ég hef örlitlar áhyggjur af þeim núna í fallbaráttunni," segir Tómas Þór.
Athugasemdir