Mikið hefur verið rætt um framtíð framherjans Dominic Solanke sem hefur verið duglegur að skora mörk með Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni.
Það eru ýmis félög áhugasöm og sagði Andoni Iraola þjálfari Bournemouth á dögunum að hann geti engu lofað varðandi framtíð Solanke, hún sé ekki í hans höndum.
Bill Foley, eigandi Bournemouth, býst þó við að halda leikmanninum. Sky Sports hefur þó heimildir fyrir því að Solanke sé með 65 milljón punda söluákvæði í samningi sínum við Bournemouth, sem gildir einungis ef stórt félag úr ensku úrvalsdeildinni býður í hann.
„Ég býst við að halda Dom hjá félaginu. Hann er með mjög hátt riftunarákvæði. Við viljum ekki segja neitt varðandi ákvæðið en sú upphæð sem hefur verið talað um í fjölmiðlum er nálægt því að vera rétt. Ef eitthvað félag ákveður að kaupa hann þá er mikilvægt fyrir okkur að finna verðugan arftaka.
„Við höfum nokkra leikmenn í huga en fyrir mitt leyti þá hef ég fulla trú á því að Dom verði áfram hjá okkur á næstu leiktíð og skori 21 eða 22 mörk."
Solanke er 26 ára gamall og var hjá Chelsea og Liverpool áður en hann gekk til liðs við Bournemouth. Hann hefur skorað 77 mörk í 216 keppnisleikjum fyrir félagið og á síðustu leiktíð setti hann 21 mark í 42 leikjum.
Solanke á þrjú ár eftir af samningi við Bournemouth en Tottenham og Chelsea eru talin vera áhugasöm.
Athugasemdir