"Ég er bara gríðarlega sáttur. Þetta er það sem við ætluðum okkur, að setja tóninn hérna heima, og mér fannst við gera það," sagði Aron Elís Þrándarson, leikmaður Víkings, eftir 5-0 sigur gegn Santa Coloma í fyrri leik liðana í einvíginu um laust sæti í Sambandsdeildinni.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 - 0 Santa Coloma
"Þetta lítur mjög vel út, ég viðurkenni það. En þú veist að ég er aldrei að fara að segja að þetta sé komið. Við erum klárir í seinni leikinn og það eru líka Evrópustig í boði þar upp á styrkleikaröðun."
Nú fá Víkingar langþráða vikuhvíld á milli leikja. "Það er mjög gott að fá hvíld núna. Það eru einhverjir búnir að vera tæpir og í smá brasi þannig að það er mjög mikilvægt að fá þessa viku."
Víkingar klúðruðu tveimur vítum í leiknum. Aron klikkaði á öðru þeirra. Situr það í honum? "Já aðeins en við unnum 5-0 og þá líður mér betur. Ég og Valdi tökum þetta á okkur og svo bara áfram gakk."
Aron kom heim í Víking í fyrra eftir áratug í atvinnumennsku. Hann segir að það að koma uppeldisfélaginu í Sambandsdeildina myndi trompa allt annað. "Ég var í 10 ár úti. Að vera í Evrópu með uppeldisklúbbnum er miklu stærra en það fyrir mér. Að komast í úrslitakeppnina í Sambandsdeildinni yrði það stærsta á mínum ferli. "
"Þetta lítur vel út. Núna klárum við að fókusa á þetta einvígi og svo er bara hörku einvígi við Blika og Val í deildinni.