Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   fös 23. febrúar 2024 11:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stara Pazova
Leikurinn stóri nánast ósýnilegur - „Þau eru bara eftir á hérna"
Icelandair
Ísland mætir Serbíu í dag.
Ísland mætir Serbíu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu Íslands í Stara Pazova í gær.
Frá æfingu Íslands í Stara Pazova í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hér í Serbíu lítur ekki út fyrir það að kvennalandsliðið hér í landi sé að fara að spila mikilvægan leik í umspili Þjóðadeildarinnar á eftir. Það eru engar auglýsingar þess efnis og á stærstu fréttamiðlum þjóðarinnar er leikurinn stóri nánast ósýnilegur.

Á stærsta fréttamiðli landsins, Kurir, er fjallað um tenniskappann Novak Djokovic, körfuboltastjörnuna Nikola Jokic, Partizan Belgrad og Rauðu stjörnuna en það er ekkert fjallað um kvennalandsleikinn sem fer fram í Stara Pazova klukkan 15:00 á eftir.

Eina fréttin sem undirritaður fann í tengslum við leikinn hjá einum af þremur stærstu fréttamiðlunum í Serbíu var hjá Blic.rs en þar er ein frétt um leik dagsins.

Þar segir að það yrði stærsta afrek í sögu kvennalandsliðs Serbíu að vinna einvígið gegn Íslandi.

Það er frítt á leikinn í dag en Jelena Cankovic, sem spilar með Chelsea á Englandi, vonast til þess að fólk láti sjá sig. „Ég vona það. Ég tel okkur eiga meiri stuðning skilið en við höfum séð hingað til. Það myndi skipta okkur miklu máli ef fólk kemur að styðja okkur," segir Cankovic.

Leigubílstjórinn olli vonbrigðum
Það virðist ekki vera mikill áhugi á serbneska kvennalandsliðinu þrátt fyrir að liðið hafi verið í góðri þróun á síðustu árum. Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, sagði áhugaverða sögu á dögunum í viðtali við RÚV.

„Mér finnst mjög mikill áhugi á fótbolta í Þýskalandi. Þetta er auðvitað allt á uppleið á Íslandi. Þegar ég var að byrja í fótbolta vorum við ekki margar stelpur að æfa. Núna eru bara allar stelpur í fótbolta liggur við. Mér finnst þetta allt vera á uppleið en ég veit ekki með Serbíu," sagði Sveindís.

„Ég tók leigubíl frá flugvellinum upp á hótelið og talaði við leigubílstjórann. Hann sagði bara: „Fótbolta? Við erum ekkert mikið að pæla í kvennaboltanum hér“. Ég bara: „Já, ókei“. Auðvitað er það leiðinlegt en þau eru bara eftir á hérna. Vonandi breytist það einhvern tímann."

Leikurinn hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner