Landsliðskonan Sandra María Jessen skrifaði nýverið undir nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Þór/KA. Sandra María hefur verið lykilmaður í liði Þórs/KA undanfarin tvö tímabil eftir að hún sneri heim frá Þýskalandi. Hún hefur verið markahæst leikmanna félagsins bæði árin.
Hún gekk aftur í raðir Þórs/KA fyrir tímabilið 2022 eftir að hafa verið hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Bayer 04 Leverkusen frá ársbyrjun 2019. Áður hafði hún tvisvar spilað í nokkra mánuði á lánssamningi erlendis, hjá Slavia Prag 2016 og Leverkusen 2018.
Hún gekk aftur í raðir Þórs/KA fyrir tímabilið 2022 eftir að hafa verið hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Bayer 04 Leverkusen frá ársbyrjun 2019. Áður hafði hún tvisvar spilað í nokkra mánuði á lánssamningi erlendis, hjá Slavia Prag 2016 og Leverkusen 2018.
Það var mikill áhugi á henni áður en hún framlengdi en líklega settu flest félög á Íslandi sig í samband við hana. Það var einnig áhugi erlendis, en hún ákvað á þessu tímapunkti að framlengja.
„Þetta var mjög erfitt, ég er alveg heiðarleg með það. Ég er með mjög mikinn fókus á fótbolta en þar sem ég er komin með fjölskyldu og barn þá þarf ég að taka margt inn í myndina. Ég er rosalega ánægð með þessa ákvörðun sem ég tók og ég tel að þetta hafi verið rétt ákvörðun fyrir mig og okkur. Ég held áfram að þróa minn leik þar og ég treysti Þór/KA og þjálfarateyminu vel fyrir því. Þetta byrjar mjög vel," sagði Sandra við Fótbolta.net í gær.
„Ég þurfti að vega og meta hvað það var sem skipti mig máli. Auðvitað hefði verið gaman að fara út, ég lýg því ekki. En þrátt fyrir að ég hafi ákveðið að vera áfram næstu tvö tímabil með Þór/KA, þá þýðir það ekki að ég sé búin að loka á einhverja möguleika eftir tvö ár og jafnvel eftir næsta tímabil. Ég þarf að halda áfram að vera á tánum, standa mig vel og sjá hvert það tekur mig."
Hægt er að sjá viðtalið við Söndru í spilaranum hér fyrir neðan en Ísland mætir á eftir Serbíu í mikilvægum leik. Sá leikur hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma og er í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir