Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   lau 23. desember 2023 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Vildum að sjálfsögðu fá hana eins og flest önnur lið í deildinni"
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það var tilkynnt á dögunum að Sandra María Jessen hefði framlengt samning sinn við Þór/KA.

Sandra María hefur verið lykilmaður í liði Þórs/KA undanfarin tvö tímabil eftir að hún sneri heim frá Þýskalandi, og fyrirliði liðsins seinna árið. Hún hefur verið markahæst leikmanna félagsins bæði árin, skoraði átta mörk í 18 leikjum í Bestu deildinni 2022 og átta mörk í 19 leikjum á nýafstöðnu tímabili.

Hún er búin að vinna sér aftur inn sæti í landsliðinu og fengið fínt hlutverk þar.

Sandra vakti áhuga hérlendis og erlendis, en Íslandsmeistarar Vals voru á meðal félaga sem reyndu að fá hana. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, aðstoðarþjálfari Vals, segir að það hafi auðvitað verið svekkjandi að missa af Söndru.

„Já, ég var það auðvitað. Við vildum að sjálfsögðu fá hana eins og flest önnur lið í deildinni," segir Adda við Fótbolta.net.

„Auðvitað tekur hún ákvörðun út frá sér en það hefði verið gaman að sjá Söndru í öðru umhverfi þar sem hún fær enn meiri samkeppni. Hún hefur gert frábæra hluti með Þór/KA en ég hefði verið spennt að sjá hana á öðrum stað. Hún tekur sína ákvörðun og við virðum það. Vonandi heldur hún áfram að bæta í sinn leik en við erum mjög svekkt að hafa misst af henni þar sem við höfðum mikinn áhuga á að fá hana."

Sandra María ákvað að vera áfram heima á Akureyri en fjölskyldu hennar hefur liðið afar vel þar. Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir Þór/KA enda hefur hún verið besti leikmaður liðsins undanfarin ár, og auðvitað einn besti leikmaður Bestu deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner