Úlfur Arnar Jökulsson þjálfari Fjölnis var ánægður með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans sigraði Þrótt 3-1 í Egilshöllinni.
Lestu um leikinn: Fjölnir 3 - 1 Þróttur R.
„Ég er ánægður með þennan sigur, mér fannst við vera mjög góðir í seinni hálfleik. Mér fannst við eiga góða kafla í fyrri hálfleik og við gerðum margt af því sem við ætluðum okkur að gera og vorum búnir að tala um í vikunni. En mér fannst vanta aðeins upp á kraft og vilja í okkur. Við vorum alveg sammála um það inn í klefa að við ættum aðeins inni í að vilja þetta aðeins meira og vera grimmari. Mér fannst við bara vera mjög flottir í seinni hálfleik."
Fjölnismenn hafa byrjað mótið vel og eru með 10 stig af 12 mögulegum eftir fyrstu fjóra leikina.
„Þetta er bara flott við erum bara ánægðir með þetta. Eitt jafntefli fyrir norðan sem voru bara sanngjörn úrslit, svo þrír góðir sigrar. Þannig við erum bara sáttir með þetta."
Það var fjallað um fjárhagsstöðu félagsins í vikunni sem virðist ekki vera góð. Úlfur segir að leikmenn hans og þjálfarar hafi ekki fundið fyrir því.
„Við finnum ekkert fyrir því. Við erum með bolta, keilur og vesti, og við æfum fótbolta. Ég kem ekki nálægt peningunum."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.