Elias Alexander Tamburini átti góðan leik er Grindavík vann Suðurnesjaslaginn gegn Keflavík 3-0.
Elias er 23 ára vinstri bakvörður frá Finnlandi sem á leiki að baki fyrir U17 og U19 landslið Finna.
Hann gekk til liðs við Grindavík fyrir helgi og bjóst ekki við að fara beint inn í byrjunarliðið.
„Við spiluðum vel sem lið og nýttum okkur veikleika þeirra á köntunum. Við keyrðum hratt upp vængina og gerðum vel eftir fyrstu fimm mínúturnar sem voru erfiðar," sagði Elias.
„Ég ætla ekki að ljúga, ég var smá stressaður í byrjun en ég óx inn í leikinn fannst ég spila þokkalega vel.
„Ég vissi ekki að ég væri í byrjunarliðinu fyrr en seint í gærkvöldi. Ég var ekki kominn í spjallhópinn því ég er nýr og fékk upplýsingarnar því seint."
Elias fékk dæmda vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem Sito skoraði úr og er ánægður með að hafa spilað vel þrátt fyrir stressið.
„Ég var stressaður því þetta er fyrsti leikurinn minn með stóru strákunum."
Athugasemdir
























