Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 23. ágúst 2019 10:35
Elvar Geir Magnússon
Barcelona að fá nóg af Dembele - Kaupin risastór mistök
Dembele er 22 ára.
Dembele er 22 ára.
Mynd: Getty Images
Dembele er sífellt meiddur.
Dembele er sífellt meiddur.
Mynd: Getty Images
Þegar Barcelona seldi Neymar til PSG 2017 ákvað félagið að fara þá leið að fylla í skarðið með því að kaupa Philippe Coutinho og Ousmane Dembele.

Sá fyrrnefndi er nú kominn til Bayern München á meðan sá síðarnefndi hefur náð að sýna rispur en ekki meira en það á Nývangi.

Umboðsmaður Dembele gaf það út í vikunni að franski leikmaðurinn væri ekki á förum en samkvæmt spænskum fjölmiðlum er það alls ekki ósk allra hjá Barcelona að halda honum.

Menn í æðstu stigum félagsins vilja fá einhverja peninga til baka sem hafa verið notaðir í leikmanninn, og það sem fyrst.

Aftur og aftur á meiðslalistanum
Dembele fékk mikla gagnrýni eftir tap Barcelona gegn Athletic Bilbao í fyrstu umferð La Liga. Hann tapaði boltanum oft og elti ekki Ander Capa, hægri bakvörð Atlhletic, þegar hann gaf fyrirgjöfina sem skóp sigurmarkið.

Dembele meiddist aftan í læri í leiknum og félagið vildi að hann færi í skoðun strax morguninn eftir. Leikmaðurinn mætti svo ekki í skoðunina heldur eyddi hann helginni í Frakklandi.

Á mánudaginn þegar hann mætti aftur til félagsins kom í ljós að hann yrði frá í fimm vikur.

Dembele hefur átt sjö kafla á meiðslalistanum síðan hann kom til Barcelona og Marca hefur reiknað það út að hann hefur aðeins spilað 66 af 120 mögulegum leikjum síðan hann kom. 228 daga hefur hann verið á meiðslalistanum.

Fólk innan Barcelona telur að ákvörðun Dembele að fara í flug í stað þess að fara í skoðun á laugardaginn sé enn eitt dæmið um ófagmennsku leikmannsins. Ófagmennsku sem hindri hann í að sýna sínar bestu hliðar.

Ruslfæði og tölvuleikjaspilun
Agavandamál hafa einnig verið í umræðunni en Ernesto Valverde skildi hann eftir utan hóps í einum leik á síðasta tímabili eftir að hann mætti ekki á æfingu og ekki náðist í hann.

Þegar loksins náðist í Dembele sagði hann að magavandamál hefðu verið ástæða þess að hann mætti ekki. Þegar hann var spurður að því af hverju hann lét ekki vita þá sagði hann að síminn sinn hefði verið rafhlöðulaus. Læknir félagsins var sendur heim til hans og samkvæmt DIario AS hafði hann skyndilega læknast af magavandamálinu þegar hann mætti á svæði.

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, gerði Dembele lítinn greiða þegar hann sagði að hann væri vanur því að mæta of seint. Liðsfélagar Dembele hafa reynt að hjálpa honum að komast aftur á beinu brautina en eru sagðir þreyttir á að vera sífellt að endurtaka sig.

Fjölmiðlar hafa sagt að Barcelona hafi sent einka-kokk til Dembele þegar hann kom fyrst til að fá hann til að hætta að borða ruslfæði. Þrátt fyrir það hafi leikmaðurinn ekki breytt sínum lífstíl en hann er sagður vaka langt fram á nótt við tölvuleikjaspilun.

Allt bendir til þess að Dembele verði áfram hjá Barcelona þegar glugganum verður lokað. Enski glugginn er lokaður og verðmæti leikmannsins hefur hrapað á tveimur árum. Hann er næst dýrasti leikmaður í sögu Barcelona en kaupin á honum stefna í að verða risastór mistök.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner