Valur staðfesti í dag að félagið hefði náð samkomulagi við Triestina Calcio á Ítalíu. Samkomulagið er á þá leið að ítalska félagið kaupir Kristófer af Val.
Fótbolti.net greindi fyrst frá yfirvofandi sölu fyrir rúmum tveimu vikum síðan og nú er salan gengin í gegn.
Kristófer er tvítugur miðjumaður sem hefur undanfarin tvö tímabil leikið með Venezia á láni frá Val.
Hann er uppalinn í Haukum en gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2021 og fór fljótlega út til Feneyja.
Hann sneri heim eftir lánssamninginn í sumar og kom við sögu í einum leik áður en áhuginn frá Triestina kom upp.
Kristófer er U21 landsliðsmaður sem fer nú í ítölsku C-deildina og byrjar tímabilið í byrjun september.
Triestina er í norðaustur-hluta Ítalíu nálægt landamærunum við Slóveníu og Króatíu.
„Knattspyrnudeild Vals og ítalska liðið Triestina Calcio 1918 hafa komist að samkomulagi um kaup á Kristófer Jónssyni frá Val. Triestina Calcio 1918 leikur í þriðju efstu deild á Ítalíu. Kristófer hefur vakið athygli liða á Ítalíu eftir að hafa verið á láni hjá Venezia FC í tvö tímabil," segir í tilkynningu Vals sem óskar honum góðs gengis.
Sjá einnig:
Kristófer: Orðinn miklu betri leikmaður eftir tímabilin á Ítalíu
Athugasemdir