Liverpool og Barcelona hafa áhuga á Alvarez - Bilic gæti tekið við West Ham - Man Utd ætlar að fá inn markvörð næsta sumar
   þri 23. september 2025 14:00
Kári Snorrason
Viðtal
Árni gerir upp tímann hjá Fylki - „Þá er eitthvað meira að en hver stendur á hliðarlínunni“
Lengjudeildin
Árni Freyr Guðnason.
Árni Freyr Guðnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni heldur að rauða sjaldið hjálpaði við ákvörðunina að láta hann fara.
Árni heldur að rauða sjaldið hjálpaði við ákvörðunina að láta hann fara.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir endaði tímabilið í 8. sæti deildarinnar.
Fylkir endaði tímabilið í 8. sæti deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni eftir leik Fylkis og ÍR.
Árni eftir leik Fylkis og ÍR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árna Frey Guðnasyni var vikið frá störfum sem þjálfari Fylkis um mitt tímabil eftir dræma stigasöfnun í deildinni. Tímabilið hjá Fylki hefur verið þungt, en liðinu var spáð beint upp en endaði á því að vera í fallhættu fyrir lokaumferð Lengjudeildarinnar. Árni stýrði liðinu í fyrstu tólf leikjum Lengjudeildarinnar en liðið sat í níunda sæti með tíu stig áður en Árni var látinn taka poka sinn.

Fótbolti.net ræddi við Árna Frey Guðnason um tíma hans hjá Fylki og komandi framtíð.

„Þetta var góður tími, frábær hópur og gott starfsteymi. En gengið var ekki nægilega gott og þá verður allt miklu erfiðara. En það er ekkert hægt að setja út á klúbbinn eða stjórnina. Hefðum við gert betri hluti á vellinum hefði verið meira gaman.“

„Við vorum frábærir í vetur, byrjuðum tímabilið ágætlega. Við náum jafntefli við Njarðvík í fyrstu umferð, vinnum Selfoss og gerum svo aulalegt jafntefli við Fjölni. Þá held ég að það hafi komið stress í hópinn. Það var búið að ganga illa hjá liðinu í tvö tímabil. Þeir björguðu sér frá falli 2023 og féllu 2024. Þetta var einhver spírall sem hélt áfram að ganga.“

Árna var vikið frá störfum eftir leik gegn Selfossi

„Við breyttum miklu og það tók kannski lengri tíma að ná því í gegn. Þó að lélegasti leikurinn okkar hafi verið gegn Selfossi áður en ég fékk sparkið, þá var ég viss um að við myndum snúa þessu við.“

„Það var ekkert sérstakt sem gerðist á Selfossi. Ég var náttúrulega í banni í þeim leik eftir fíaskó gegn ÍR, ég held að það hjálpaði við ákvörðunina. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk ég tveggja leikja bann, fyrir að mínu mati ekki neitt.“

Hvernig var viðskilnaðurinn?

„Ég átti samtal við stjórnina á miðvikudeginum áður. Það virtust allir vera á sömu línu, alla vega þeir sem voru nánastir mér. Ég talaði mikið við eldri leikmenn í liðinu og þegar fréttirnar bárust þá hringdu þeir í mig og voru ekki sáttir við þetta. Ég auðvitað spilaði með þeim og þekki þá vel. En þegar á botninn er hvolft er þetta ekkert sem ég eða þeir geta gert í, stjórnin tekur þessa ákvörðun. Þeir höfðu áhyggjur á að liðið myndu falla og vildu reyna á að komast í umspilið á einhverju nýju. Það voru engin leiðindi.“


Fyrsta sumarfríið

Eftir að Árna var vikið frá störfum tók Arnar Grétarsson við liðinu. Í fyrstu fimm leikjum Arnars var liðið með einungis eitt stig. Hvernig var að horfa upp á gengi liðsins eftir að þú varst farinn?

„Ég væri að ljúga að þér ef ég segði að ég hafi horft á marga leiki. Ég fór í algjört frí í fyrsta sinn á ævi minni yfir sumartímann. En ég fylgdist með úrslitum og heyrði í mönnum. Í þessum viðtölum sem Arnar fór í, heyrðist mér að þetta væri svipað.“

„Þeir voru betri í leikjunum en náðu ekki að skora og voru í veseni með föst leikatriði og skyndisóknir. En ef þú skiptir um þjálfara og hann er með eitt stig af fyrstu fimmtán mögulegum. Þá er eitthvað meira að en hver stendur á hliðarlínunni. Ég skil alveg ákvörðunina þó að ég hafi ekki verið sammála henni á þessum tíma.“


Síminn er opinn

Árni segist vera reiðubúinn að taka við öðru liði sé verkefnið spennandi.„Ég er opinn fyrir ýmsu. Ef að síminn hringir þá svara ég honum. En ég er ekki að fara í hvað sem er, maður þarf að skoða hvað er í boði.“

Athugasemdir
banner
banner