þri 23. nóvember 2021 09:41
Elvar Geir Magnússon
Abramovich heimsótti Stamford Bridge í fyrsta sinn síðan 2018
Roman Abramovich.
Roman Abramovich.
Mynd: EPA
Thomas Tuchel, stjóri Chelsea.
Thomas Tuchel, stjóri Chelsea.
Mynd: Getty Images
Rússneski milljarðamæringurinn Roman Abramovich, eigandi Chelsea, verður ekki viðstaddur Meistaradeildarleikinn gegn Juventus í kvöld þrátt fyrir að hafa ferðast til London og heimsótt Stamford Bridge á sunnudag.

Abramovich hefur ekki verið viðstaddur heimaleik hjá Chelsea í yfir þrjú ár en hann tók á móti Isaac Herzog, forseta Ísrael, á viðburði á Stamford Bridge á sunnudag.

Abramovich nýtti heimsóknina ekki í að hitta Thomas Tuchel en hann fór á Imperial-stríðssafnið til að skoða sýningu um helför gyðinga sem hann hjálpaði við að fjármagna.

Eftir að Abramovich fékk ekki vegabréfsáritun á Bretlandi 2018 hefur hann ekki heimsótt Stamford Bridge fyrr en um helgina. Hann heimsótti London sem ísraelskur ríkisborgari en hann er með tvöfalt ríkisfang.

Talsmaður Abrampovich segir að ekki hafi verið pláss í dagskrá Abramovich til að mæta á leikinn. Hann hafi verið búinn að bóka sig á góðgerðarsamkomur annars staðar.

Abramovich var viðstaddur í Portúgal þegar Chelsea vann Manchester City í úrslitleik Meistaradeildarinnar fyrr á árinu. Hann hitti Tuchel daginn eftir leikinn og ræddi við hann um áætlanir um leikmannakaup.

Tuchel talaði vel um Abramovich á fréttamannafundi í gær.

„Hann er mikill fótboltaáhugamaður. Hann elskar þessa íþrótt og hugsar um smáatriðin. Hann vill vita allt um það sem gerist á æfingasvæðinu. Við gefum honum upplýsingar því hann hefur mikinn áhuga og elskar íþróttina," segir Tuchel.

Chelsea tapaði 1-0 gegn Juventus í Tórínó fyrir tveimur mánuðum. Evrópumeistararnir tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum ef þeir ná að forðast tap gegn Massimiliano Allegri og lærisveinum sem þegar eru komnir í útsláttarkeppnina.

Tuchel sagði á fréttamannafundi í gær að Romelu Lukaku gæti verið á bekknum eftir að hafa jafnað sig af ökklameiðslum en Kai Havertz er að glíma við nárameiðsli og er tæpur. Mateo Kovacic er enn frá en þeir Jorginho, Timo Werner og Christian Pulisic eru allir leikfærir.
Athugasemdir
banner
banner
banner