
Eftir seinni leikinn þar sem stuðningsmenn Lech Poznan - sem eru grjótharðir - klappa fyrir Víkingum.
Víkingur og Lech Poznan frá Póllandi virðast vera orðin ágætis vinafélög eftir einvígi liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
Víkingar börðust hetjulega og gáfu allt í verkefnið, en á endanum var það ekki nóg.
Víkingur vann fyrri leikinn á Víkingsvelli en töpuðu seinni leiknum eftir framlengingu. Seinni leikurinn var mjög eftirminnilegur þar sem Danijel Dejan Djuric jafnaði á síðustu sekúndu leiksins. Í framlengingunni voru Pólverjarnir sterkari.
Víkingar unnu sér inn mikla virðingu hjá stuðningsfólki Lech með frammistöðu sinni í einvíginu og var leikmönnum Víkings vel fagnað í leikslok í Póllandi; stuðningsmenn Lech klöppuðu fyrir leikmönnum Víkinga og hrósuðu þeim svo í hástert á samfélagsmiðlum.
Lech hefur gert afskaplega vel í keppninni og eru komnir í 16-liða úrslit Sambandsdeildarinnar eftir sigur á Bodö/Glimt frá Noregi. Þetta er í fyrsta sinn frá 1991 þar sem pólska félag kemst á þetta stig í Evrópukeppni og árangurinn því sögulegur.
Víkingar sendu vinum sínum kærleikskveðju á Twitter í gær og er óhætt að segja að sú kveðja hafi fengið góð viðbrögð hjá stuðningsmönnum Lech, en hún er með tæplega 1300 'læk' þegar þessi frétt er skrifuð og margar athugasemdir þar sem Fossvogsfélaginu er þakkað fyrir góðan stuðning.
„Takk félagar. Ég mun muna eftir leik kvöldsins og leiknum við ykkur til ævilokar," skrifar einn stuðningsmaður Lech við færsluna sem má sjá hér fyrir neðan.
Lech mætir Djurgården frá Svíþjóð í 16-liða úrslitunum og getur þar haldið áfram að skrifa söguna.
Congratulations to our Polish friends for reaching the last 16 of the Conference League. https://t.co/q4OAGKZ7ym
— Víkingur (@vikingurfc) February 23, 2023
Athugasemdir