Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 24. ágúst 2019 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Lampard: Sóknarmennirnir verða að stíga upp
Mynd: Getty Images
Chelsea hefur ekki farið sérlega vel af stað undir stjórn Frank Lampard, þrátt fyrir að hafa átt góða kafla í fyrstu leikjum tímabilsins.

Liðið tapaði Ofurbikar Evrópu í vítaspyrnukeppni gegn Manchester City eftir að hafa skilað inn góðri framistöðu. Liðið byrjaði vel gegn Manchester United en tapaði svo 4-0 og þá átti Chelsea góðan fyrri hálfleik en slakan seinni í jafntefli á heimavelli gegn Leicester.

Lampard er reglulega spurður hvort Chelsea sakni ekki manna eins og Eden Hazard, Diego Costa og Didier Drogba.

„Það eru næg gæði í hópnum til að vinna leiki þó Eden sé ekki hérna. Hann er ekki lengur hjá félaginu og búið mál. Auðvitað er hann stórkostlegur leikmaður sem var gríðarlega mikilvægur fyrir félagið en þetta er partur af fortíðinni," sagði Lampard.

„Leikmennirnir sem eru í hópnum núna þurfa að stíga upp. Það er staðreynd að Eden tók þátt í flestum mörkum og það er undir okkur komið að dreifa álaginu. Við getum alveg skorað úr öðrum stöðum.

„Sóknarmennirnir verða að stíga upp. Mér finnst ekki sniðugt að hugsa til leikmanna fyrri tíma því þeir eru ekki hérna lengur. Það er ekki auðvelt að finna leikmenn eins og Didier Drogba og Diego Costa."


Tammy Abraham og Olivier Giroud hafa verið að skiptast á að spila sem fremsti maður Chelsea en Michy Batshuayi hefur ekki enn verið notaður í deildinni.

„Við getum ekki bara óskað þess að vera með Didier Drogba. Árið er 2019 og við þurfum að leysa þennan vanda. Það er undir sóknarmönnunum að skora mörk, það er rétt að öll önnur topplið eru með leikmenn innanborðs sem skora reglulega. Leikmenn okkar hafa gæðin til þess að gera það líka."
Athugasemdir
banner
banner