Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 24. september 2020 18:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Valur færist nær titlinum
Fyrsti sigur Vals í Kaplakrika í 13 ár
Valur vann sterkan sigur í Kaplakrika.
Valur vann sterkan sigur í Kaplakrika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már skoraði tvö.
Birkir Már skoraði tvö.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grótta og Fjölnir eru í ansi vondum málum.
Grótta og Fjölnir eru í ansi vondum málum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Tryggvi Hrafn gerði tvö fyrir ÍA í sigri á Fjölni.
Tryggvi Hrafn gerði tvö fyrir ÍA í sigri á Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er hægt að segja það að Valsmenn séu komnir ansi nálægt því að landa Íslandsmeistaratitlinum eftir frábæran útisigur gegn FH í Pepsi Max-deild karla í dag.

FH vildi fá víti eftir rúman stundarfjórðung þegar boltinn fór í hendi Eiðs Arons Sigurbjörnssonar, en ekkert var dæmt. Stuttu síðar kom fyrsta markið þegar Birkir Már Sævarsson skoraði eftir aukaspyrnu.

Það var hiti í Kaplakrika og FH-ingar alls ekki sáttir við störf Helga Mikaels, dómara. Á 40. mínútu komst Valur í 2-0 þegar Patrick Pedersen skoraði eftir sendingu frá Sigurði Agli. Staðan var ekki 2-0 lengi því FH minnkaði muninn stuttu síðar. Steven Lennon skoraði eftir frábæra sendingu frá Eggerti Gunnþóri.

Gestirnir leiddu 2-1 í hálfleik og í byrjun seinni hálfleiks kom þriðja mark þeirra. Hægri bakvörðurinn Birkir Már skoraði þá sitt annað mark í leiknum og var talað um það á samfélagsmiðlum að hann væri að fara að gera seint tilkall að gullskónum með þessu áframhaldi.

Á 57. mínútu var Guðmann Þórisson, varnarmaður FH, sendur í sturtu. „Fer í rosalega tæklingu á Lasse Petry og sýnir sólann auk þess að vera allt of seinn. Hugsa að það sé erfitt að mótmæla þessu," skrifaði Sverrir Örn Einarsson í beinni textalýsingu.

Á 65. mínútu gerðu Valsmenn svo út um leikinn er Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði af vítapunktinum. Helgi Mikael dæmdi hendi á Guðmund Kristjánsson.

Síðustu mínúturnar voru rólegar og lauk leiknum með 4-1 sigri Vals sem er á toppi deildarinnar með 11 stiga forystu á FH, sem á leik til góða. Valur á eftir sex leiki og FH sjö.

Þess má geta að þessi sigur í dag var fyrsti sigur Vals í Kaplakrika í heil 13 ár.

Tíu Gróttumenn náðu jafntefli - ÍA lagði Fjölni
Það eru ansi góðar líkur á því að Valur verði Íslandsmeistari, en á sama tíma eru mjög góðar líkur á það verði nýliðarnir Grótta og Fjölnir sem munu fara niður í Lengjudeildina.

Grótta sýndi hetjulega baráttu gegn ríkjandi Íslandsmeisturum KR í dag og náði í stig gegn nágrönnum sínum, þrátt fyrir að hafa verið manni færri frá 38. mínútu.

Sigurvin Reynisson, fyrirliði Gróttu, fékk að líta rauða spjaldið seint í fyrri hálfleik fyrir tæklingu á Pablo Punyed. Gróttumenn voru brjálaðir, en þeir komust yfir á 54. mínútu og var þar að verki Karl Friðleifur Gunnarsson. Pablo Punyed jafnaði fyrir KR á 70. mínútu og þar við sat. KR náði ekki að nýta sér liðsmuninn.

KR er í þriðja sæti með 24 stig, 16 stigum á eftir toppliði Vals en tvo leiki til góða. Grótta er með átta stig í 11. sæti, sjö stigum frá öruggu sæti.

Fjölnir er með sex stig, níu stigum frá öruggu sæti. Fjölnir tapaði í dag á heimavelli gegn ÍA. Stefán Teitur Þórðarson og Tryggvi Hrafn Haraldsson, bestu leikmenn ÍA, komu þeim í 2-0 áður en Guðmundur Karl Guðmundsson minnkaði muninn. Tryggvi Hrafn gerði svo út um leikinn fyrir ÍA, lokatölur 3-1, en ÍA situr í sjöunda sæti með 20 stig.

Þá gerðu KA og Hk 1-1 jafntefli fyrir norðan. Arnþór Ari Atlason kom HK yfir snemma leiks en Almarr Ormarsson, fyrirliði KA, jafnaði þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. HK er í áttunda sæti með 19 stig og KA í níunda sæti með 16 stig. KA á leik til góða á HK.

FH 1 - 4 Valur
0-1 Birkir Már Sævarsson ('18 )
0-2 Patrick Pedersen ('40 )
1-2 Steven Lennon ('42 )
1-3 Birkir Már Sævarsson ('46 )
1-4 Kristinn Freyr Sigurðsson ('65 , víti)
Rautt spjald: Guðmann Þórisson, FH ('57)
Lestu nánar um leikinn

KR 1 - 1 Grótta
0-1 Karl Friðleifur Gunnarsson ('54 )
1-1 Pablo Oshan Punyed Dubon ('70 )
Rautt spjald: Sigurvin Reynisson, Grótta ('38)
Lestu nánar um leikinn

Fjölnir 1 - 3 ÍA
0-1 Stefán Teitur Þórðarson ('16 )
0-2 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('83 )
1-2 Guðmundur Karl Guðmundsson ('89 )
1-3 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('93 )
Lestu nánar um leikinn

KA 1 - 1 HK
0-1 Arnþór Ari Atlason ('14 )
1-1 Almarr Ormarsson ('80 )
Lestu nánar um leikinn

Leikir kvöldsins:
19:15 Fylkir - Víkingur
19:15 Breiðablik - Stjarnan


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner