Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 24. september 2023 23:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vangaveltur
Ferðalag Blika óþarflega langt og krefjandi? - Flest lið fóru í einkaflugi
Ísland - London - Tel Aviv - Frakkland - Ísland. Ferðalag hófst aðfaranótt þriðjudags og lauk á laugardag.
Ísland - London - Tel Aviv - Frakkland - Ísland. Ferðalag hófst aðfaranótt þriðjudags og lauk á laugardag.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það er alls ekki gefins að fljúga með einkaflugvél, en hversu mikið af upphæðinni sem félagið fékk fyrir að komast í riðlakeppnina er það tilbúið að eyða í þátttöku liðsins í riðlakeppninni?
Það er alls ekki gefins að fljúga með einkaflugvél, en hversu mikið af upphæðinni sem félagið fékk fyrir að komast í riðlakeppnina er það tilbúið að eyða í þátttöku liðsins í riðlakeppninni?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar á hliðarlínunni á Bloomfield leikvanginum. 'Ég þarf ekki alltaf að ná fullkomnum nætursvefni, það er mikilvægara fyrir leikmennina mína; að þeir hvílist og séu með sem bestan aðbúnað'
Óskar á hliðarlínunni á Bloomfield leikvanginum. 'Ég þarf ekki alltaf að ná fullkomnum nætursvefni, það er mikilvægara fyrir leikmennina mína; að þeir hvílist og séu með sem bestan aðbúnað'
Mynd: EPA
Orkustigið kom mér ekki á óvart, en það kom mér kannski skemmtilega á óvart hversu lengi menn náðu að halda því og einhvern veginn að keyra á þá.
Orkustigið kom mér ekki á óvart, en það kom mér kannski skemmtilega á óvart hversu lengi menn náðu að halda því og einhvern veginn að keyra á þá.
Mynd: EPA
Menn virðast hafa sloppið vel frá þessum leik og þessari ferð. Það er auðvitað gleðilegt
Menn virðast hafa sloppið vel frá þessum leik og þessari ferð. Það er auðvitað gleðilegt
Mynd: Getty Images
Breiðablik lék á fimmtudag sinn fyrsta leik í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á fimmtudag þegar liðið mætti Maccabi Tel Aviv í Ísrael.

Í aðdraganda leiksins ræddi Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, um ferðalagið til Ísraels. Hann sagði að liðið myndi fljúga til London og lenda svo eftir miðnætti (aðfaranótt miðvikudags) í Ísrael. Leikurinn var tæpur tveimur sólarhringum síðar eða klukkan 22 á ísraelskum tíma. Það vakti athygli hjá undirrituðum að Breiðablik flaug ekki með einkaflugi.

Eftir leikinn, aðfaranótt föstudags, ferðuðust Blikar svo til Frakklands þar sem leikmenn og þegar vel var liðið á föstudaginn gátu leikmenn og starfsfólk farið að sofa á hóteli í Frakklandi. Leikmenn flugu svo heim til Íslands á laugardag. Aftur vakti athygli að ekki var flogið með einkaflugi.

Það er ljóst að þetta var lengsta ferðalag Breiðabliks í riðlakeppninni, og raunar lengsta ferðalag nokkurs liðs í Sambandsdeildinni í 1. umferðinni. Ferðalagið var langt, tæplega 5300 km frá Keflavík til Tel Aviv í gegnum London. Af hverju var ekki flogið með einkaflugi eða áætlunarflugi beint til Ísraels? Sennilega því það var hagstæðara í bókhaldinu.

Icelandair, sem er ekki að kosta þessa grein, flýgur þrisvar sinnum í viku beint til Tel Aviv frá Keflavíkurflugvelli og aftur hina leiðina. Blikar hefðu getað flogið út á sunnudag* og heim á föstudag. Það hefðu verið fimm nætur á hóteli sem eru að sjálfsögðu ekki gefins. Breiðablik fékk hins vegar væna summu í kassann fyrir að ná að komast í riðlakeppnina.

Breiðablik hóf síðasta sunnudag þriggja vikna törn þar sem liðið spilar sjö gífurlega mikilvæga leik. Heimaleik gegn FH, útileik gegn Maccabi, heimaleik gegn Víkingi, útileik gegn Val, útileik gegn KR, heimaleik gegn Zorya Luhansk og útileik gegn Stjörnunni í lokaumferð Bestu deildarinnar. Allt getur talið í álagsstýringu.

Langflest lið. mögulega öll, sem spiluðu útileiki í 1. umferð Sambandsdeildarinnar, flugu með einkaflugi. Astana átti næst lengsta ferðalagið í fyrstu umferðinni, 4000 km eru í flugi frá Astana til Zagreb í Króatíu. Astana flaug með einkaflugi. Sama gerði Bodö/Glimt þegar liðið fór frá Noregi til Lugano í Sviss og Besiktas sem fór frá Tyrklandi til Brugge í Belgíu.

Hefði kosið að fljúga beint til Tel Aviv á sunnudeginum
Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn í dag og var hann spurður út í ferðalagið.

„Við flugum til London á þriðjudagsmorgun, biðum á Heathrow í fimm tíma, flugum svo til Ísraels og vorum lentir á miðnætti að staðartíma, komnir á hótel um klukkan tvö aðfaranótt miðvikudags. Þá tók við að ná svefni og reyna halda íslenskum tíma," sagði Óskar. Hann segir að á æfingunni í Ísrael, á miðvikudagskvöldið, hafi þeir Alexander Helgi Sigurðarson og Andri Rafn Yeoman orðið tæpir og mögulega megi það rekja til ferðalagsins.

Hvað fór í gegnum hugann þegar ferðaáætlunin lá fyrir? Hefðir þú viljað sjá leiguflug?

„Það var aldrei rætt, það var ekki í spilunum. Ég hafði mínar skoðanir og hefði kosið að taka beint flug á sunnudeginum til Tel Aviv. Það þótti vera of löng ferð. Ég sá fram á að þetta gæti orðið erfitt ferðalag. Planið eftir leik var svo að við færum með flugi frá Ísraels til Frakklands um nóttina, þar yrði bið og svo flug heim frá Frakklandi. Það var tekin ákvörðun um að menn myndu fá að hvílast í einn sólarhring fyrir flugið heim. Ég held að það muni talsverðu."

„Ég hafði áhyggjur því það er mjög krefjandi verkefni í gangi. Stórleikur á morgun, Valur á fimmtudag, KR á sunnudag, Zorya Luhansk á fimmtudag og svo Stjarnan á sunnudegi. Þetta eru fimm mjög erfiðir leikir á tveimur vikum tæpum. Maður er aldrei rólegur og þegar farið er í jafn langt ferðalag og raun ber vitni. Endurheimt, hvíld, matur og drykkur er mjög mikilvægt í öllu þessu ferli."

„Önnur lið hafa væntanlega ekki þurft að ferðast svona langt og hafa væntanlega getað farið með þægilegri ferðamáta. Þetta er kannski eitthvað sem menn þurfa að skoða og læra. Auðvitað er það þannig að leiguvél frá Keflavík til Ísraels hefði verið gríðarlega dýr. Það var bara farin þessi leið, engin önnur sem var rædd."


Kemur þér á óvart þegar þú horfir til baka á leikinn á fimmtudaginn hvernig orkustigið í leikmönnum var?

„Nei, ég held að í svona leikjum þá eiga menn auðvelt með að gíra sig upp. Umgjörðin var þess eðlis; þegar þú heyrir Conference League stefið, það er eitthvað sem kveikir í mönnum. Menn voru hins vegar orðnir mjög þreyttir í lokin, gáfu einhvern veginn allt. Orkustigið kom mér ekki á óvart, en það kom mér kannski skemmtilega á óvart hversu lengi menn náðu að halda því og einhvern veginn að keyra á þá. Það er frábært."

„Ég er þakklátur fyrir að enginn er meiddur eftir þetta, menn virðast hafa sloppið vel frá þessum leik og þessari ferð. Það er auðvitað gleðilegt."


Þú sjálfur, ert þú þreyttur eftir ferðalagið?

„Nei, ég er bara ágætur. Ég náði að hvílast sæmilega í Frakklandi. Svona ferðalög eru lýjandi, mikil pressa og þau taka á. Ég er með ágætlega hátt orkustig og lifi þetta af. Ég þarf ekki alltaf að ná fullkomnum nætursvefni, það er mikilvægara fyrir leikmennina mína; að þeir hvílist og séu með sem bestan aðbúnað," sagði Óskar.

*Breiðablik spilaði gegn FH síðasta sunnudag en sá leikur var færður vegna veðurs, var upprunalega settur á laugardag. Ætla má að Blikar hefðu haldið sig við að spila á laugardeginum ef þeir hefðu átt bókað flug á sunnudeginum.
Athugasemdir
banner